19.7.2015 | 11:11
Hæpin notkun úrfellingarmerkisins
Haustið 2014 skrifaði Pontus Järvstad BA-ritgerð í sagnfræði (á ensku) um sagnritun okkar Þórs Whiteheads í bókum um íslensku kommúnistahreyfinguna. Dr. Ragnheiður Kristjánsdóttir var leiðbeinandi hans, og er ritgerðin aðgengileg á skemman.is. Ritgerðarhöfundur kveður Þór hafa oftúlkað eitt af inntökuskilyrðunum 21, sem kommúnistaflokkum voru sett samkvæmt ályktun Alþjóðasambands kommúnista í Moskvu 1920. Þetta var þriðja skilyrðið, og vitnar Pontus svo í það (í íslenskun minni) á bls. 29:
Í nær öllum löndum Evrópu og Ameríku er stéttabaráttan að breytast í borgarastríð. Við þær aðstæður geta kommúnistar ekki treyst borgaralegum lögum. ... Í löndum, þar sem umsátursástand eða neyðarlög svipta kommúnista kostinum á að halda allri starfsemi sinni áfram löglega, er samtenging löglegrar og ólöglegrar starfsemi bráðnauðsynleg.
Pontus segir síðan, að þetta hafi átt við, þar sem kommúnistaflokkar hafi verið ólöglegir. Þess vegna villi Þór Whitehead um fyrir lesendum sínum með því að segja, að bardagalið, sem kommúnistar stofnuðu hér 1932, hafi verið í samræmi við þetta skilyrði Kominterns frá 1920.
Hvaða texta skyldi úrfellingarmerki Pontusar Järvstads fela í sér? Hann er þessi (skáletrun mín): Þeir skuldbinda sig til að mynda alls staðar ólögleg hliðarsamtök, sem geta á úrslitastund aðstoðað flokkinn við að gera skyldu sína gagnvart byltingunni. Hér er beinlínis kveðið á um baráttusamtök, sem starfa skuli alls staðar. Bersýnilega átti þetta inntökuskilyrði því ekki aðeins við í þeim löndum, þar sem kommúnistaflokkar voru ólöglegir. Síðasta setningin í þriðja inntökuskilyrðinu er hins vegar um þau lönd. Hefði leiðbeinandinn, Ragnheiður Kristjánsdóttir, ekki átt að vara hinn unga og óreynda ritgerðarhöfund við þessari hæpnu notkun eða jafnvel misnotkun úrfellingarmerkisins? Eða var henni ekki kunnugt um inntökuskilyrðin í Alþjóðasamband kommúnista?
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 18. júlí 2015.)
Hér eru klausurnar úr BA-ritgerðinni og úr inntökuskilyrðum Kominterns:
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook