1.7.2015 | 05:49
Bækurnar í sumarbústaðinn
Nú eru hinir björtu, löngu dagar sumarbústaðanna. Þar slaka menn á, fara í gönguferðir, spjalla við fjölskylduna og grilla á kvöldin. Jafnframt vilja margir líta í bók, þegar þannig á stendur. Hér eru ráð um fjórar góðar bækur, sem taka mætti með í sumarbústaðinn:
Kíra Argúnova eftir Ayn Rand er skáldsaga um sjálfstæða og hugrakka rússneska konu, sem er í sambandi við tvo menn, Lev og Andrej. Hún á fárra kosta völ, þegar heitar ástríður rekast á erfiðar aðstæður. Sagan gerist í Pétursborg í upphafi þriðja áratugarins, og notast Rand við eigin reynslu: Hún fór frá Rússlandi til Bandaríkjanna 1926 og varð fyrst handritshöfundur í Hollywood, en gaf síðan út nokkrar metsölubækur, sem enn seljast eins og heitar lummur.
Uppsprettan eftir Rand er skáldsaga um bandarískan húsameistara, Howard Roark, sem lætur aðra ekki segja sér fyrir verkum, hvorki auðjöfra né almúga. Hann er í sambandi við Dominique, sem er raunar líka í sambandi við blaðakóng, Wynand Gail, og fjórða aðalsöguhetjan er dálkahöfundur í blöðum Gails, Ellsworth Toohey. Fyrirmynd Roarks er alkunn, bandaríski húsameistarinn Frank Lloyd Wright, en blaðakóngurinn og dálkahöfundurinn minna á tvo kunna Íslendinga, Wynand Gail á Jón Ólafsson athafnamann og Ellsworth Toohey á Stefán Ólafsson prófessor, enda líkir veruleikinn stundum eftir listinni.
Undirstaðan eftir Rand er skáldsaga um Dagnýju Taggart, sem rekur stórfyrirtæki, og mennina í lífi hennar, sem eru margvíslegrar gerðar, en dularfyllstur þeirra er John Galt, sem stjórnvöld vilja ná til. Óvíða kemur greinarmunurinn á afburðamönnum og afætum skýrar fram, munurinn á skapandi einstaklingum annars vegar og þeim, sem gerast sníkjudýr á öðrum, hins vegar. Undirstaðan hefur breytt lífi margra, enda er hún um, hvernig menn geta stækkað af sjálfum sér í stað þess að smækka af öðrum.
Heimur batnandi fer er eftir dr. Matt Ridley, sem var lengi vísindaritstjóri Economist og skrifar nú reglulega í Times um vísindi. Hann er dýrafræðingur að menntun, en hefur skrifað margar bækur um erfðafræði og þróun. Í þessari bók, sem er mjög læsileg, bendir Ridley á, hversu miklar framfarir hafa orðið í heiminum síðustu áratugi: Smitsjúkdómar hafa horfið að mestu, glæpum hefur fækkað, matvælaframleiðsla hefur aukist, hægt hefur á fólksfjölgun, venjulegum neytendum stendur til boða miklu fjölbreyttari og betri vara en áður og svo framvegis.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 06:07 | Facebook