29.6.2015 | 22:04
Þrisvar boðið Ísland
Hinrik VIII af Tudor-ætt er kunnastur fyrir að hafa kvænst sex sinnum og slitið tengsl biskupakirkjunnar við páfadóm. En hann sýslaði einnig talsvert um Ísland, á meðan hann ríkti á Englandi 1509-1547, enda leituðu margir Englendingar hingað norður. Til dæmis er þess getið árið 1528, að 149 fiskiskip sæktu Íslandsmið, en fiskiskipafloti Englendinga var þá um 440 skip. Það er í frásögur færandi, að Danakonungar buðu Hinrik VIII Ísland þrisvar, en hann hafnaði öllum boðunum.
Fyrst sendi Kristján II erindreka til Hinriks árið 1518 og bað um 100 þúsund flórína lán gegn veði í Íslandi og Færeyjum (en flórínur voru gullpeningar, kenndir við borgina Flórens, og hafði hver að geyma 3,54 g skíragulls; miðað við núverandi gullverð næmi þessi upphæð nú um 14 milljónum Bandaríkjadala). Ekki varð af viðskiptunum, en þó voru gerð drög að lánasamningi.
Kristján II var valtur í sessi og varð árið 1523 að flýja ríki sitt. Eitt síðasta verk hans áður var að senda nýjan hirðstjóra til Íslands, Týla Pétursson, sem hafði gegnt embætti hér áður, 1517-1520, og þótt óeirðasamur. Týla kom illa saman við hirðstjórann, sem fyrir var á Bessastöðum, Hannes Eggertsson, en auk þess lék sá grunur á, að Týli ynni að því að koma landinu undir Englandskonung. Var Týli dæmdur óbótamaður á Alþingi um sumarið, og lét Hannes Eggertsson höggva hann þá um haustið. Þegar Hinrik konungur spurði aftöku Týla til Lundúna, tilkynnti hann Kristjáni konungi í desember 1523, að hann hefði alls engan áhuga á því að ríkja yfir þessu landi.
Ári síðar, 1524, reyndi Kristján II aftur að fá lán hjá Hinrik VIII með veði í Íslandi og Færeyjum, en fékk engar undirtektir, enda landflótta.
Einn af eftirmönnum Kristjáns II á konungsstóli í Danmörku, Kristján III, reyndi síðan 1535 að bjóða Hinrik VIII Ísland gegn láni og stuðningi í erjum, sem hann átti þá í, svokölluðu Greifastríði, en Englandskonungur vísaði boðinu á bug. Hinrik VIII hefði viljað eignast virki við Eyrarsund, en hafði alls engan áhuga á hinni hrjóstugu eyju langt út á Atlantshafi, þótt þúsundir þegna hans veiddu þar fisk á hverju ári.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 27. júní 2015.)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook