Ritdómur minn í European Political Science

Nú hefur ritdómur minn um tvær hrunbækur á ensku birst í vefútgáfu tímaritsins European Political Science og mun síðar birtast í pappírsútgáfu þess. Þær eru Bringing down the banking system eftir Guðrúnu Johnsen og Iceland and the international financial crisis: Boom, bust and recovery eftir Eirík Bergmann.

Ég varð að stytta umsögnina um bók Guðrúnar talsvert frá fyrstu drögum, því að þar var löng upptalning á fjöldanum öllum af villum, sem hafa því miður flækst inn í hana. Bók Eiríks er áreiðanlegri heimild um bankahrunið, þótt auðvitað sé sannleikskjarni í kenningu Guðrúnar um, að íslenskir bankamenn hafi farið allt of geyst. Hún sýnir fram á það í bók sinni, að íslenskir bankar virtust hafa ótakmarkað lánstraust í erlendum bönkum og að hópur íslenskra auðmanna virtist hafa ótakmarkað lánstraust í íslenskum bönkum. Afleiðingin varð ótrúleg lánsfjárbóla árin 2004–2008.

En skýra þarf, hvers vegna íslenskir bankar nutu lánstrausts. Guðrún gefur í skyn eðlilegt svar, sem má líka finna í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, ef grannt er skoðað: Stjórn fjármála og peningamála þótti svo traust árin 1991–2004, að orðspor Íslands varð gott og með því lánstraust íslenskra fyrirtækja. 

Guðrún skýrir hins vegar í raun ekki, hvers vegna fámennur hópur auðmanna undir forystu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar virtist njóta ótakmarkaðs lánstrausts í íslensku bönkunum. Ég hygg, að ein meginskýringin sé yfirburðastaða Jóns Ásgeirs í þjóðlífinu, eftir að hann hafði unnið fjölmiðlafrumvarpsmálið með fulltingi forseta Íslands og réð yfir öllum helstu fjölmiðlum landsins, jafnframt því sem allt virtist verða að gulli, sem hann snerti í atvinnulífi og á fjármálamarkaði. Hann virtist vera í senn Hearst blaðakóngur og Soros fjármálasnillingur.

Hér eru tölur úr skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, en þær sýna, hvernig útlán bankanna skiptust á hópana þrjá, sem rannsóknarnefnd Alþingis taldi skipta mestu máli í fjármálalífinu. Þar sést, að Baugsklíkan var í sérflokki:

baugsbo_769_la_jog_1263526.jpg

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband