19.6.2015 | 11:42
Gunnar Smári: Óvæntur siðapostuli
Þeir Gunnar Smári Egilsson og Jakob Bjarnar Grétarsson veifa sigri hrósandi á Facebook framan í mig einhverjum erlendum blaðagreinum um, að kapítalisminn sé misheppnaður. Ég svaraði þeim þar svo:
Ég þarf raunar ekki eitt þúsundustu fréttina gegn kapítalismanum til að sannfæra mig um eitt eða neitt, einhverja misjafnlega nákvæma endursögn á skýrslu. Ég hef reynslu síðustu tvö hundruð ára á Vesturlöndum. Ég hef samanburðinn á Ástralíu (kapítalisma) og Argentínu (populisma), á Singapúr (kapítalisma) og Jamaíku (populisma), á Vestur-Þýskalandi (kapítalisma) og Austur-Þýskalandi (sósíalisma), á Suður-Kóreu (kapítalisma) og Norður-Kóreu (sósíalisma). Og ég hef reynsluna á Íslandi frá 1991 til 2004, þegar ég hafði ef til vill einhver áhrif. Þá bötnuðu lífskjör stórkostlega og frelsi jókst. Þetta var fyrir lánabóluna. Þetta var ekki velmegun tekin að láni.
Árið 2004 var Ísland eitthvert besta land í heimi til að búa í samkvæmt öllum alþjóðlegum samanburðartölum. Síðan náðu auðjöfrarnir völdum þetta ár og stjórnuðu landinu til 2008. Þá tók klíkukapítalisminn við af markaðskapítalismanum. Þá hófst lánabólan, sem síðan sprakk með ósköpum. Einn af helstu pennum auðjöfraklíku Jóns Ásgeirs Jóhannessonar var einmitt Gunnar Smári Egilsson, sem nú hefur óvænt tekið að sér hlutverk vandlætara og siðapostula yfir kapítalismanum. Við skulum bera saman afkomuna á Íslandi 19912004, sem ég legg undir, og afkomu Nyhedsavisen í Danmörku, sem hann getur lagt undir. Tapið á því blaði á aðeins tveimur árum nam um 450 milljónum danskra króna eða um níu milljörðum íslenskra króna á núverandi gengi. Þetta var meira en tíu milljónir ísl. kr. á dag!
Við Davíð, Björn og Kjartan héldum upp á myndun ríkisstjórnar Davíðs 30. apríl 1991 á Hótel Holti. Þeir Gunnar Smári og Jón Ásgeir Jóhannesson héldu upp á prentun fyrstu eintakanna af Nyhedsavisen á Café Victor í Kaupmannahöfn 5. október 2006 (og þá var drukkið svo ákaft (ekki þó Gunnar Smári), að hópurinn varð of seinn og missti af því, þegar prentvélarnar voru ræstar). Við Davíð og félagar getum litið stoltir um öxl á árin 19912004, áður en klíkukapítalisminn tók völdin á Íslandi. Geta Gunnar Smári og Jón Ásgeir horft stoltir um öxl á árin 20042008?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 21.6.2015 kl. 16:59 | Facebook