Andersen skjölin

gunnar_andersen_-_kapa-lq_medium_1262117.jpgHvort sem menn eru sammála Eggerti Skúlasyni um allt í hinni nýju bók hans eða ekki, hljóta þeir að viðurkenna, að hún er vel skrifuð og vel unnin. Eggert hefur talað við fjölda manns og kynnt sér gaumgæfilega helstu heimildir, og texti hans flæðir vel fram. Lesandinn lætur bókina ekki frá sér fyrr en fulllesna.

Eggert vekur athygli á tvennu, sem flestir ættu að geta tekið undir. Annað er, að eftir bankahrunið var skapað víðtækt vald eftirlitsaðila, en þessu valdi var síðan stundum beitt að ósekju gegn saklausum mönnum. Einn þeirra er Ingólfur Guðmundsson útibússtjóri, annar Guðmundur Örn Gunnarsson, forstjóri VÍS. Þeir voru hraktir úr störfum sínum, líklega báðir að frumkvæði Gunnars Andersens, forstjóra fjármálaeftirlitsins, sem hafði lent í árekstrum við Ingólf, á meðan báðir störfuðu í Landsbankanum, en var líklega að hefna sín á Guðmundi Erni fyrir gagnrýni á starfshætti fjármálaeftirlitsins. Öll gögn sýna, að þeir Ingólfur og Guðmundur Örn höfðu ekkert brotið af sér, og hefur Ingólfur unnið öll þau mál, sem hann hefur höfðað fyrir dómstólum vegna framkomunnar við sig.

Hitt er, að stundum myndast óeðlileg hagsmunatengsl milli blaðamanna og embættismanna. Blaðamennirnir fá upplýsingar, sem ella liggja ekki á lausu og eru oftast bundnar ströngum trúnaði, en embættismennirnir fá jákvæðar umsagnir eða losna að minnsta kosti við neikvæðar umsagnir og gagnrýni. Augljóst er, að þessu var svo farið í dæmi Gunnars Andersens. Sumir blaðamenn fengu upplýsingar frá honum eða einhverjum á hans vegum, og þess í stað skrifuðu þeir af aðdáun um hetjulega baráttu hans gegn spillingu og gerðu honum að öðru leyti hátt undir höfði. Nú eiga lekar eða uppljóstranir vitaskuld stundum rétt á sér, þegar brýnir almannahagsmunir eru í húfi (þótt með því sé ekki sagt, að þeir verði við það löglegir). En stundum eru slíkir lekar ekkert annað en áreitni og innrás inn í einkalíf manna.

Sjálfur sé ég af þessari bók, hvaðan einn leki um mig, sem gera átti mikið mál úr á sínum tíma, er bersýnilega kominn. Og mér finnst furðu sæta, hversu linlega mál Gunnars Andersens var rannsakað. Í nýlegu lekamáli í innanríkisráðuneytinu var lögreglan mjög harðhent, lagði hald á tölvur og fékk útskriftir af símhringingum. En í lekamáli Gunnars Andersens gerðist ekkert slíkt, og var það þó sýnu alvarlegra. Ég á bágt með að trúa, að lekinn, sem Gunnar var beinlínis staðinn að, hafi verið hinn eini, sem hann bar ábyrgð á. Hvers vegna lagði lögreglan ekki hald á tölvur hans og fékk útskriftir af símhringingum? Hvers vegna var málið ekki rannsakað út í hörgul?

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband