15.6.2015 | 19:14
Því hertóku Bretar ekki Ísland?
Anna Agnarsdóttir prófessor hefur sýnt fram á, að breskir áhrifamenn vildu í lok 18. aldar og byrjun hinnar 19. leggja Ísland undir Bretaveldi og að Bretastjórn velti því tvisvar alvarlega fyrir sér.
Síðustu tvo áratugi átjándu aldar sendi John Cochrane, Skoti af aðalsættum, sem bjó um skeið í Kaupmannahöfn, bresku stjórninni ótal tillögur um að leggja undir sig Ísland, og ætlaði hann sjálfum sér þar jarlstign. Taldi hann ótæmandi brennisteinsnámur á Íslandi og gjöful fiskimið undan landi. Landið gæti einnig hentað sem fanganýlenda.
Bretastjórn tók lítið mark á tillögum Cochranes, uns Danir skipuðu sér sumarið 1800 í röð óvinaríkja Breta. Í janúar 1801 bað hermálaráðherrann, Henry Dundas, Sir Joseph Banks, sem hafði ferðast um Ísland 1772, að skrifa skýrslu um Ísland. Sir Joseph kvað ekki eftir miklu þar að slægjast, en þó myndi auka hróður Bretaveldis að frelsa íbúana undan dönskum kúgurum. Skömmu síðar sigraði breski flotinn Dani, og var þá ekki talin þörf á frekari aðgerðum.
Eftir að Bretar réðust á Kaupmannahöfn sumarið 1807 og tóku á sitt vald danska flotann, snerust Danir til fylgis við Napóleon. Þá báðu breskir ráðamenn Sir Joseph Banks aftur um að gera skýrslu um Ísland. Sir Joseph mælti enn með því að leggja Ísland undir Bretaveldi, enda mætti gera það friðsamlega, því að íbúar væru langþreyttir á Dönum. Ekki varð nú heldur úr hertöku. Hvers vegna?
Eins og Anna Agnarsdóttir bendir á, töldu Bretar ekki svara kostnaði að leggja hið hrjóstuga Ísland undir sig, þótt þeir vildu jafnframt koma í veg fyrir, að eitthvert Evrópustórveldanna réði þar. Áhugi þeirra á Íslandi var því neikvæður. Þeir þurftu ekki bein yfirráð yfir landinu, því að breski flotinn réð hvort sem er yfir Norður-Atlantshafi. Bretar vildu ekki heldur styggja Dani, sem voru þeim oftast vinveittir þrátt fyrir Napóleonsstríðin. Þess vegna varð Ísland ekki bresk hjálenda í upphafi 19. aldar.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 13. júní 2015.)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook