14.6.2015 | 22:55
Varð dramb Íslendingum að falli?
Dramb er talið eitt af dauðasyndunum sjö ásamt ágirnd, lauslæti, öfund, græðgi, heift og hirðuleysi. Á íslensku er einnig til málshátturinn: dramb er falli næst. Ýmsir íslenskir fræðimenn hafa einmitt gripið til drambs, þegar þeir ræða um bankahrunið haustið 2008. Íslendingar hafi miklast um of, ætlað sér að sigra heiminn, talið sig skara fram úr öðrum þjóðum. Þeir hafi verið á valdi goðsagna um sjálfa sig, sem til hafi orðið í sjálfstæðisbaráttu 19. aldar. Til dæmis um þetta eru hafðar ræður forseta Íslands við ýmis tækifæri fyrir bankahrunið og skýrslur Viðskiptaráðs og starfshóps forsætisráðuneytisins um ímynd Íslands (Kristín Loftsdóttir 2015, 910; Vilhjálmur Árnason 2015, 55). Hér skal því haldið fram, að dramb skýri að minnsta kosti ekki bankahrunið og að Íslendingar geti nú sem fyrr borið höfuðið hátt. Vissulega hafi ýmsar goðsagnir sprottið upp úr sjálfstæðisbaráttu Íslendinga, en helsti leiðtogi hennar, Jón Sigurðsson, hafi verið raunsær framfaramaður og ekki stuðst við þær goðsagnir frekar en þeir stjórnmálamenn, sem lyftu merkinu eftir hann.
Raunverulegar orsakir bankahrunsins
Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, var ötull stuðningsmaður hinnar svokölluðu útrásar fjármálamanna fyrir bankahrunið 2008, eins og fram kemur í bók Guðjóns Friðrikssonar (2008) um hann. Útrásin er byggð á hæfni og getu, þjálfun og þroska sem einstaklingarnir hafa hlotið og samtakamætti sem löngum hefur verið styrkur okkar Íslendinga, sagði Ólafur Ragnar til dæmis á fundi Sagnfræðingafélagsins í ársbyrjun 2006. Lykillinn að árangrinum sem útrásin hefur skilað er fólginn í menningunni, arfleifðinni sem nýjar kynslóðir hlutu í vöggugjöf, samfélaginu sem lífsbarátta fyrri alda færði okkur, viðhorfum og venjum sem eru kjarninn í siðmenningu Íslendinga. Menn innan íslenska fjármálageirans viðruðu svipaðar skoðanir. Í skýrslu Viðskiptaráðs um framtíðarsýn frá 2006 var lagt til, að Ísland hætti að bera sig saman við Norðurlöndin enda stöndum við þeim framar á flestum sviðum. Setja skyldi markið hærra: Ísland ætti að verða besta land í heimi. Í skýrslu til forsætisráðuneytisins um ímynd Íslands frá 2008 sagði um sjálfsmynd Íslendinga: Fólk taldi frelsisþrá og athafnagleði hafa fylgt Íslendingum allt frá landnámi. Aðlögunarhæfni og þrautseigja eru talin Íslendingum í blóð borin og hafa gert þjóðinni kleift að lifa af í harðbýlu landi í nábýli við óblíð náttúruöfl. Þessi einkenni endurspeglist í mikilli sköpunargleði, óbilandi bjartsýni og trú á getu úrræðagóðra Íslendinga til að framkvæma hið ógerlega (Vilhjálmur Árnason o. fl. 2010, 173, 187 og 193).
Auðvelt er að vera vitur eftir á. Ýmislegt í yfirlýsingum forsetans og vina hans í fjármálaheiminum virðist kátlegt eftir bankahrunið. En þegar hugsunarhátturinn að baki er skoðaður nánar, sést, að höfundarnir fjölyrða ekki um neina liðna gullöld, heldur telja þeir, að fámennið geti verið styrkur ekki síður en veikleiki og að Íslendingar hafi herst í erfiðri lífsbaráttu fyrri alda. Hvort tveggja er að einhverju leyti rétt, þótt fjölmenni geti líka verið styrkur og aðrar þjóðir hafi margar háð enn erfiðari lífsbaráttu en Íslendingar. En jafnvel þótt þessi hugsunarháttur hafi stundum breyst í hvimleiðan þjóðernishroka, vísa ég því á bug, að hann hafi ráðið úrslitum um bankahrunið. Hvað olli því þá? Sumir svara því til, að á Íslandi hafi verið fylgt óðakapítalisma, sem hafi getið af sér óða kapítalista (Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir o. fl. 2010). En íslenskir bankar lutu sama regluverki og aðrir bankar Evrópska efnahagssvæðisins. Af hverju féllu aðrir evrópskir bankar þá ekki? Og þótt atvinnufrelsi hafi vissulega aukist á Íslandi 19912004, bjuggu margar aðrar þjóðir við frjálsara hagkerfi (Gwartney o. fl. 2005). Af hverju féllu bankar þeirra þjóða þá ekki? Aðrir svara því til, að bankarnir hafi vaxið of hratt og orðið of stórir miðað við Ísland (Páll Hreinsson o. fl. 2014). En bankar vaxa ekki af sjálfum sér, heldur af því að þeir eignast viðskiptavini. Og bankakerfi sumra annarra Evrópuþjóða var hlutfallslega jafnstórt og hið íslenska, til dæmis bankakerfi Skotlands (miðað við Skotland), Sviss og Kýpur. Hvers vegna féllu bankar þar þá ekki? Vegna þess að þeim var bjargað ólíkt hinum íslensku. Sannleikurinn er sá, að hið alþjóðlega bankakerfi riðaði allt til falls haustið 2008, og íslensku bankarnir voru síðan látnir falla ólíkt bönkum annarra landa. Bandaríski seðlabankinn neitaði íslenska seðlabankanum um gjaldeyrisskiptasamninga og aðra aðstoð, sem seðlabankar annarra ríkja fengu (GAO 2011), og breska stjórnin lokaði breskum bönkum í eigu Íslendinga, um leið og öllum öðrum breskum bönkum var bjargað með stórkostlegri opinberri aðstoð. Breska stjórnin gerði síðan illt margfalt verra með því að beita hryðjuverkalögum á Ísland (Hannes H. Gissurarson 2014 og 2015). Hitt er annað mál, að íslensku bankarnir uxu allt of hratt. Ástæðan til þess, að þeir gátu gert það, var hið góða orðspor, sem Íslendingar höfðu aflað sér árin 19912004 vegna festu í peningamálum og fjármálum (Ásgeir Jónsson 2009). Traustið á Íslandi, sem þá myndaðist, færðist yfir á útrásarvíkingana, og þeir misnotuðu það eða ofnotuðu, en þá minnkaði aftur traust á Íslandi, og öll sund lokuðust.
Goðsagnir sjálfstæðisbaráttunnar
Þótt forseti Íslands og útrásarvíkingarnir hafi ekki skírskotað eins títt til liðinnar gullaldar og gagnrýnendur þeirra vilja vera láta, er hitt rétt, að í sjálfstæðisbaráttunni íslensku urðu til goðsagnir. Þær voru í stystu máli, að á þjóðveldistímanum hefðu Íslendingar búið við frelsi og farsæld, síðan verið sviknir í hendur erlends valds, þá tekið við myrkar aldir kúgunar og fátæktar, en Íslendingar risið upp og endurheimt frelsi sitt og farsæld á nítjándu og tuttugustu öld. Málsnjallasti höfundur þessara goðsagna var þjóðskáldið Jónas Hallgrímsson. Í kvæðinu Ísland, sem birtist í fyrsta hefti fyrsta árgangs Fjölnis 1834, yrkir hann:
Ísland, farsælda frón og hagsælda hrímhvíta móðir,
hvar er þín fornaldar frægð, frelsið og manndáðin best?
Allt er í heiminum hverfult, og stund þíns fegursta frama
lýsir sem leiftur um nótt langt fram á horfinni öld.
Landið var fagurt og frítt og fannhvítir jöklanna tindar,
himinninn heiður og blár, hafið var skínandi bjart.
Þá komu feðurnir frægu og frjálsræðis hetjurnar góðu
austan um hyldýpis haf hingað í sælunnar reit.
Reistu sér byggðir og bú í blómguðu dalanna skauti,
ukust að íþrótt og frægð, undu svo glaðir við sitt.
Hátt á eldhrauni upp, þar sem enn þá Öxará rennur
ofan í Almennagjá, alþingið feðranna stóð.
Síðan ber Jónas hina liðnu sælutíð saman við dauflegan nútímann í því skyni að brýna Íslendinga til dáða:
Landið er fagurt og frítt og fannhvítir jöklanna tindar,
himinninn heiður og blár, hafið er skínandi bjart.
En á eldhrauni upp, þar sem enn þá Öxará rennur
ofan í Almannagjá, alþing er horfið á braut.
Nú er hún Snorrabúð stekkur og lyngið á Lögbergi helga
blánar af berjum hvert ár, börnum og hröfnum að leik.
Ó, þér unglinga fjöld og Íslands fullorðnu synir,
svona er feðranna frægð fallin í gleymsku og dá.
Þetta kvæði er öllum íslenskum skólabörnum kennt, og þeir Jónas Jónsson frá Hriflu (191516) og Jón Aðils (1915) sömdu snemma á tuttugustu öld vinsælar kennslubækur í sögu, sem höfðu að geyma svipaða skoðun.
Vandalaust er að sýna fram á, að söguskoðun Jónasar Hallgrímssonar, Jónasar Jónssonar frá Hriflu og Jóns Aðils stenst ekki. Þjóðveldið var enginn sælureitur, þótt þá væru vissulega skapaðar merkilegar bókmenntir, auk þess sem stjórnskipan þjóðveldisins fól í sér hugvitssamlegar tilraunir til að leysa ýmis mál með samningum í stað valdboðs, eins og hagfræðingarnir David Friedman (1979), Þráinn Eggertsson (1992) og Birgir Þór Runólfsson (1993) hafa bent á. Ástæðan til hnignunar atvinnulífs upp úr 1300 var ekki síst, að veður kólnaði og hin viðkvæma náttúra landsins leyfði ekki frekari landnytjar. Enn fremur bættu hinn danski konungur og innlend landeigendastétt gráu ofan á svart, þegar landbúnaður varð með Píningsdómi 1490 hinn eini lögleyfði atvinnuvegur. Íslendingar sultu, þótt gnótt væri fiskjar í sjó. Þeir gátu ekki sest að við sjávarsíðuna og fengið útlent fjármagn til að smíða þilskip, heldur urðu að láta sér nægja öldum saman að róa á opnum árabátum út á mið nokkra mánuði á ári (Gísli Gunnarsson 1987; Þráinn Eggertsson 1995). Þegar úr rættist á nítjándu og tuttugustu öld, var það fremur vegna verslunarfrelsis og fjármagnsmyndunar en vakningar íslensku þjóðarinnar. Það er síðan kaldhæðni örlaganna, að þjóðernisstefna Jónasar Hallgrímssonar og sporgöngumanna hans var ekki sprottin upp úr íslenskum jarðvegi, heldur sköpunarverk þeirra og orðin til fyrir erlend áhrif. Til dæmis var kvæði Jónasar, sem hér var vitnað til, keimlíkt kvæði, sem danska skáldið Adam Oehlenschläger hafði ort um Ísland (Ringler 2002, 103). Annað frægt kvæði Jónasar í anda rómantískrar þjóðernisstefnu, Gunnarshólmi, var svipað kvæði eftir þýska skáldið Adelbert von Chamisso um liðna gullöld Grikkja (Ringler 2002, 142).
Jón Sigurðsson: þjóðrækinn frjálshyggjumaður
Þótt þjóðernisstefna þeirra Jónasar Hallgrímssonar, Jónasar Jónssonar frá Hriflu og Jóns Aðils hafi frekar verið sköpunarverk þeirra sjálfra (og jafnvel erlendra skálda!) en raunsönn lýsing á eðli og hlutskipti íslensku þjóðarinnar í bráð og lengd, er hitt hæpið, að íslenskt þjóðerni hafi ekki orðið til fyrr en á nítjándu öld. Nær er að segja, að það sé litlu yngra byggð í landinu. Fyrsta dæmið, sem ég kann, er, þegar Íslendingar tóku í lög seint á tíundu öld, eftir að Haraldur blátönn Danakóngur hafði gert upptækt íslenskt skip, að yrkja skyldi níðvísur um hann jafnmargar nefjum í landinu. Tilfærir Snorri Sturluson (1979, I, 270) eina vísuna í Heimskringlu. Fyrst var orðið íslenskur notað, svo að ég viti, þegar Sighvatur skáld Þórðarson var á ferð í Gautlandi árið 1018. Þá hafði sænsk kona orð á því, að hann var dökkeygur, og kastaði skáldið þá fram vísu um, að augun íslensku hefðu reynst sér vel (Snorri Sturluson 1979, II, 140). Íslendingar gerðu fyrsta milliríkjasamning sinn við erlent ríki 1022, þegar þeir sömdu við Noregskonung um rétt íslenskra manna í Noregi. Í Íslendinga sögum, sem færðar voru í letur á þrettándu og fjórtándu öld eftir munnmælum, var líka talað af tortryggni um konunga og illræðismenn (Vatnsdæla 1939, 31). Þegar Íslendingar tregðuðust til að samþykkja sáttmálann 1262 við Noregskonung, sem Gissur Þorvaldsson hafði forgöngu um, var það vissulega ekki vegna þjóðernisstefnu, heldur almennrar tortryggni í garð konunga, sérstaklega vegna skattheimtugleði þeirra og stríðsfýsi. Þeir vissu, eins og Einar Þveræingur sagði í ræðu þeirri, er Snorri Sturluson lagði honum í munn (1979, II, 2167) gegn erindrekstri Þórarins Nefjólfssonar fyrir Noregskonung, að konungar eru misjafnir, sumir góðir og aðrir vondir, og er því hyggilegast að hafa engan konung. Smám saman öðluðust Íslendingar vitund um það, að í þjóðararfi þeirra væri eitthvað sérstakt og dýrmætt, og vilja til að varðveita það og verja. Tvö dæmi frá öndverðri sautjándu öld má nefna. Þegar Jón Indíafari Ólafsson (1908, 70) var í danska flotanum, átti hann leið um bjórkrá í Kaupmannahöfn. Þar talaði danskur múrari hátt um það, hvers konar illþýði byggi á Íslandi. Jón vatt sér að honum og spurði, hvort hann hefði komið til Íslands. Múrarinn bað Guð að forða sér frá því að fara í það djöflabæli. Þá rak Jón Indíafari honum tvo vel útilátna kinnhesta. Eftir að múraranum hafði verið fleygt út, lýsti kráreigandinn yfir ánægju sinni með það, hversu drengilega Jón verði föðurland sitt. Mæli ég þó frekar með aðferð Arngríms lærða Jónssonar, sem skrifaði varnarrit um Ísland (1612) gegn rógi og álygum erlendra manna og benti á, að Íslendingar ættu eigin tungu og menningu, sem þeir gætu verið stoltir af.
Sjálfstæðisbaráttan íslenska var hins vegar ekki háð undir merkjum hinnar rómantísku þjóðernisstefnu Jónasar Hallgrímssonar og annarra Fjölnismanna. Hvort tveggja var, að þeir höfðu sáralítið fylgi og að tveir hinir aðsópsmestu þeirra dóu ungir, Jónas og Tómas Sæmundsson. Jónas var mikið skáld, en lítill stjórnmálamaður. Leiðtogi og skilgreinandi sjálfstæðisbaráttunnar var Jón Sigurðsson. Honum verður best lýst sem þjóðræknum frjálshyggjumanni, sem vildi nýta hið besta úr menningu Íslendinga og annarra þjóða. Í Nýjum félagsritum mælti Jón (1843, 523) með sterkum rökum fyrir atvinnufrelsi og frjálsri verslun, enda þekkti hann vel til kenninga Johns Lockes og Adams Smiths um takmarkað ríkisvald og framfarir í krafti frjálsra alþjóðaviðskipta. Og í Hugvekju til Íslendinga (1848) setti Jón fram rökin fyrir því, að Íslendingar ættu að stjórna sér sjálfir. Þau voru þríþætt. Í fyrsta lagi hefðu Íslendingar játast undir konung 1262 með þeim skilyrðum, að þeir fengju að halda lögum sínum. Þeir hefðu síðan með einveldishyllingunni 1662 afsalað sér þessum umsamda rétti til konungs, og þá hefði sáttmálinn frá 1262 fallið úr gildi. En um leið og konungur afsalaði sér einveldi, tæki sáttmálinn frá 1262 aftur gildi. Ísland hlyti því að taka aftur við stjórn eigin mála, þótt það ætti konung sameiginlegan með Danmörku. Í öðru lagi væru Íslendingar sérstök þjóð með eigin tungu, sögu og menningu, en ekki hluti af Danmörku, og bæri að virða það. Í þriðja lagi væri heppilegast, að þeir, sem hnútum væru kunnugastir, stjórnuðu landinu, en ekki embættismenn í höfuðborg Danmerkur, órafjarri Íslandi. Og Jón gekk lengra. Þegar ákveðið var að skilja að fjárhag Danmerkur og Íslands, reiknaði hann út, að Danir skulduðu Íslendingum stórfé vegna einokunarverslunarinnar og upptöku jarða kirkna og klaustra (Páll Eggert Ólason 1932 og 1933).
Þjóðrækni í stað þjóðernishroka
Hvers vegna bar Jón Sigurðsson, sem var allra manna raunsæjastur, fram jafnlangsótt rök og að nú væri aftur kominn í gildi sáttmáli allt frá 1262 og að Danir skulduðu Íslendingum auk þess stórfé? Það var áreiðanlega ekki vegna þess, að hann byggist við því, að Danir tækju því vel, enda varð það ekki. Jón bar fram þessi rök vegna þess, að hann vildi ganga uppréttur á fund Dana, ekki með betlistaf. Hann vildi skilgreina samskipti Íslendinga og Dana eins og samskipti tveggja þjóða, þar sem aflsmunur væri að vísu mikill, en enginn eðlismunur: Báðar væru þetta þjóðir með eigin tungu og menningu. En þjóðrækni Jóns var ekki fornaldardýrkun eða söknuður eftir liðinni sælutíð. Hann skrifaði í bréfi til vinar síns (1865): Ég held mikið upp á fornöld vora, en ég vil ekki gjöra oss að apaköttum þeirrar aldar. Jón vildi opna Ísland. Hann var óhræddur við útlendinga. Hann skrifaði í bréfi til bróður síns (1866): Þú heldur, að einhver svelgi okkur. Látum þá alla svelgja okkur í þeim skilningi, að þeir eigi við okkur kaup og viðskipti. Frelsið er ekki í því að lifa einn sér og eiga ekki viðskipti við neinn. Ég efast um, að Símon Stylites eða Díógenes [kunnir einsetumenn að fornu] hafi verið frjálsari en hver önnur óbundin manneskja. Frelsið kemur að vísu mest hjá manni sjálfum, en ekkert frelsi, sem snertir mannfélagið, kemur fram nema í viðskiptum, og þau eru því nauðsynleg til frelsis. Jón var maður meðalhófsins, í senn frjálslyndur og íhaldssamur. Þegar skólapiltar í Reykjavík hylltu hann árið 1875, hafði Gestur Pálsson ort kvæði til hans um, að hann þekkti aldrei bönd. En Jón kastaði eindregið frá sér þeim ummælum, að hann hefði aldrei bönd þekkt, að þola stjórn og bönd væri eitt af skilyrðunum fyrir því að geta orðið nýtur maður; bönd væru jafnnauðsynleg inn á við sem út á við, jafnnauðsynleg fyrir líf einstakra manna sem þjóða, og frelsið án banda, án takmörkunar, væri ekki frelsi, heldur agaleysi og óstjórn (Jón Jakobsson 1911).
Jón Sigurðsson naut víðtæks trausts með þjóðinni, þótt vitanlega væri hann ekki óumdeildur frekar en nokkur annar stjórnmálamaður í lýðræðisríki. Sérstaklega studdu framkvæmdamenn eins og Tryggvi Gunnarsson kaupfélagsstjóri og Þorlákur Ó. Johnsen kaupmaður hann einarðlega. Fyrsti ráðherrann, Hannes Hafstein, fylgdi svipaðri stefnu og Jón. Hannes hafnaði fornaldardýrkun og var áhugasamur um verklegar framfarir, en til þeirra þurfti erlent fjármagn. Hann var hins vegar engin undirlægja útlendinga (Jón Þorláksson 1923). Sömu skoðunar var Jón Þorláksson forsætisráðherra, einn nánasti samstarfsmaður Hannesar. Lítt þekkt, en skýrt dæmi var, þegar leið að Alþingishátíð 1930. Í nefnd um hugsanlega dagskrá þingfundar lagði Jón til, að lýst yrði yfir vilja til að færa út fiskveiðilögsöguna. Ásgeir Ásgeirsson, sem sat með honum í nefndinni, hafnaði því með þeim rökum, að útlendingar kynnu að þykkjast við. Var þá brugðið á það ráð að leggja fyrir þingið ályktun um gerðardómssamninga milli Norðurlanda (Hannes H. Gissurarson 1992, 427). Þeir Ólafur Thors og Bjarni Benediktsson reyndu ekki fremur en Hannes Hafstein og Jón Þorláksson á undan þeim að ganga í augum á útlendingum, þótt þeir teldu rétt að gæta fyllstu kurteisi í samskiptum við þá. Landið vantaði enn sárlega markaði og erlent lánsfé, og bjuggu þeir Ólafur og Bjarni svo um hnúta ásamt öðrum, að Íslendingar gerðu hagfellda viðskiptasamninga við Breta og Bandaríkjamenn í stríðinu og fengu ríflega Marshall-aðstoð frá Bandaríkjunum eftir stríð. Þeir skömmuðust sín ekki fyrir að gæta af fullri festu hagsmuna þjóðarinnar. Útfærsla fiskveiðilögsögunnar í tvö hundruð mílur hefði aldrei tekist heldur, ef Íslendingar hefðu hugsað um það eitt, hvað fulltrúum annarra þjóða fyndist. Icesave-málið 20082013 væri efni í heila bók, en furðulegt var að heyra suma íslenska fræðimenn mæla gegn því af tillitssemi við útlendinga, að látið yrði reyna fyrir dómstólum á réttindi íslensku þjóðarinnar og skyldur. Þórarinn Nefjólfsson var ef til vill fyrsti erindreki erlends valds á Íslandi, en hann var ekki hinn síðasti.
Íslendingar eiga að bera höfuðið hátt
Vitaskuld gengu forseti Íslands og útrásarvíkingarnir of langt fyrir bankahrun eins og kennslubókahöfundarnir Jónas Jónsson frá Hriflu og Jón Aðils löngu á undan þeim: Þjóðrækni varð stundum í munni þeirra að þjóðernishroka. En óþarfi er að sveiflast öfganna á milli og halda því þá fram, að Íslendingar geti ekki staðið á eigin fótum og þurfi að skríða í skjól stærri þjóða. Þegar ég stundaði ungur nám í Oxford-háskóla, var ég iðulega spurður, hversu margir við Íslendingar værum. Ég svaraði því til, að við tækjum gæði fram yfir magn, svo að við værum vel innan við ein milljón talsins. Ég vildi ekki kikna í hnjáliðum, þótt viðmælendur mínir væru komnir af miklu fjölmennari þjóðum, enda breytir það engu um gildi einstaklingsins, og má raunar jafnvel segja, að því fjölmennari sem þjóð er, því minna verði til skiptanna fyrir hvern og einn einstakling af henni. Ekki óraði mig síðan fyrir því þá, að í stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, þar sem ég átti eftir að kenna, yrðu deildarfundir haldnir á ensku vegna tveggja útlendinga, sem þar störfuðu, og voru báðir fullfærir um að læra íslensku. Háskóli Íslands hafði verið stofnaður á aldarafmæli Jóns Sigurðssonar, 17. júní 1911, svo að íslenskt æskufólk gæti lært íslenska sögu, íslensk lög, íslenskar bókmenntir í stað danskrar sögu, danskra laga og danskra bókmennta. Nú hefur enskan tekið við af dönskunni. Þótt fáir tali íslensku í heiminum, er hún og á að vera fullgilt mál á Íslandi, ekki síst í Háskóla Íslands. Í rauninni er ekki aðalatriðið heldur, hvort Íslendingar voru felldir í bankahruninu eða hvort þeir féllu sjálfir. Aðalatriðið er, að þeir standi aftur á fætur, en til þess þurfa þeir vilja til að vera þjóð. Íslendingar eiga ekki aðeins að standa á fætur, heldur að bera höfuðið hátt í samskiptum við aðrar þjóðir. Það er ekki dramb, heldur eðlilegt og réttmætt stolt.
[Grein í Íslensku leiðinni, blaði stjórnmálafræðinema, 2015.]
Heimildir
Arngrímur Jónsson 1612. Anatome Blefkeniana. Hólar: Biskupsembættið.
Ásgeir Jónsson 2009. Why Iceland? How one of the worlds smallest countries became the meltdowns biggest casualty. New York: McGrawHill.
Birgir Þór Runólfsson [Birgir T. R. Solvason] 1993. Institutional Evolution in the Icelandic Commonwealth. Constitutional Political Economy 5 (1), 97125.
Friedman, D. 1979. Private Creation and Enforcement of Law: A Historical Case. Journal of Legal Studies 8 (2: March), 399415.
GAO 2011. Government Accountability Office. Federal Reserve System. Report to Congressional Adressees. Washington DV: United States Government Accountability Office (July). Sjá http://www.gao.gov/Products/GAO-11-696 [sótt 15. mars 2015].
Gísli Gunnarsson 1987. Upp er boðið Ísaland. Einokunarverslun og íslenskt samfélag 16021787. Reykjavík: Örn og Örlygur.
Guðjón Friðriksson 2008. Saga af forseta. Forsetatíð Ólafs Ragnars Grímssonar, útrás, athafnir, átök og einkamál. Reykjavík: Mál og menning.
Gwartney, J., og Lawson, R. 2005. Economic Freedom of the World: 2005 Annual Report. Vancouver BC: Fraser Institute. Sjá líka http://www.freetheworld.com/release_2005.html [sótt 15. mars 2015].
Hannes H. Gissurarson 1992. Jón Þorláksson forsætisráðherra. Reykjavík: Almenna bókafélagið.
Hannes H. Gissurarson 2014. Alistair Darling and the Icelandic Bank Collapse. Þjóðarspegillinn 2014. Rannsóknir í félagsvísindum XV. Stjórnmálafræði. Reykjavík: Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands. Sjá http://skemman.is/item/view/1946/20032 [sótt 15. mars 2015].
Hannes H. Gissurarson 2015. The Icelandic 2008 bank collapse: What really happened? Cayman Islands Financial Review 38 (January), 6870. Sjá http://www.compasscayman.com/cfr/2015/01/30/Iceland%E2%80%99s-2008-bank-collapse--What-really-happened/ [sótt 15. mars 2015].
Jón J. Aðils 2015. Íslandssaga. Reykjavík: Bókaverzlun Sigfúsar Eymundssonar.
Jón Jakobsson 1911. Frásögn í bréfi 7. mars. Sjá Bréf Jóns Sigurðssonar. Nýtt safn, xxi. Reykjavík 1933: XX
Jón Ólafsson 19089 [rituð um 1661]. Æfisaga, ritstj. Sigfús Blöndal. Kaupmannahöfn: Hið íslenzka bókmenntafélag.
Jón Sigurðsson 1843. Um verzlun á Íslandi. Ný félagsrit 3, 1127.
Jón Sigurðsson 1848. Hugvekja til Íslendinga. Ný félagsrit 8, 124.
Jón Sigurðsson 1865. Bréf til Gísla Hjálmarssonar 13. maí. Lbs. 2591 4to.
Jón Sigurðsson 1866. Bréf til Jens Sigurðssonar 3. október. Lbs. 2591 4to.
Jón Þorláksson 1923. Frá fyrstu stjórnarárum Hannesar Hafsteins, Óðinn 19. Endurpr. í Ræðum og ritgerðum, ritstj. Hannes H. Gissurarson, 6669. Reykjavík: Stofnun Jóns Þorlákssonar 1985.
Jónas Jónsson frá Hriflu 191516. Íslandssaga handa börnum, 1.2. bindi. Reykjavík án útg.
Kristín Loftsdóttir 2015. Vikings Invade Present-Day Iceland. Gambling Debt. Icelands Rise and Fall in the Global Economy, ritstj. Gísli Pálsson og E. P. Durrenberger, 314. Boulder, CO: University Press of Colorado.
Páll Hreinsson, Sigríður Benediktsdóttir og Tryggvi Gunnarsson 2010. Aðdragandi og orsakir falls íslensku bankanna 2008 og tengdir atburðir. Skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis, 1. bindi, 2. kafli. Reykjavík: Alþingi.
Páll Eggert Ólason 1932. Jón Sigurðsson, IV. bindi. Reykjavík: Hið íslenzka þjóðvinafélag.
Páll Eggert Ólason 1933. Jón Sigurðsson, V. bindi. Reykjavík: Hið íslenzka þjóðvinafélag.
Ringler, D. 2002. Bard of Iceland: Jónas Hallgrímsson poet and scientist. Madison: University of Wisconsin Press.
Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir og Robert Wade 2010. Lessons from Iceland. New Left Review 65 (SeptemberOctober), 529.
Snorri Sturluson 1979 [rituð um 1225]. Heimskringla, IIII, ritstj. Bjarni Vilhjálmsson. Reykjavík: Hið íslenzka fornritafélag.
Vatnsdæla saga 1939 [höf. ók.]. Ritstj. Einar Ól. Sveinsson. Reykjavík: Hið íslenzka fornritafélag.
Vilhjálmur Árnason 2015. Something Rotten in the State of Iceland. Gambling Debt. Icelands Rise and Fall in the Global Economy, ritstj. Gísli Pálsson og E. P. Durrenberger, 4759. Boulder, CO: University Press of Colorado.
Vilhjálmur Árnason, Kristín Ástgeirsdóttir og Salvör Nordal 2010. Siðferði og starfshættir í tengslum við fall íslensku bankanna 2008. Viðauki 1 við Skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis. 8. bindi. Reykjavík: Alþingi.
Þráinn [Thrainn] Eggertsson 1992. Analyzing Institutional Successes and Failures: A Millennium of Common Mountain Pastures in Iceland. International Review of Law and Economics 12, 423437.
Þráinn [Thrainn] Eggertsson 1995. No experiments, monumental disasters: Why it took a thousand years to develop a specialized fishing industry in Iceland. Journal of Economic Behaviour & Organisation 30, 123.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 21.6.2015 kl. 10:51 | Facebook