Vinir í raun

banksportrait.jpgÍsland er lítið land, sem flestum er sama um, en fæstir því þó fjandsamlegir. Slíku landi ríður miklu frekar á því en hinum stærri að eiga vini í háum stöðum erlendis. Þeir geta ráðið úrslitum á ögurstund, því að okkur munar vegna smæðarinnar verulega um það, sem öðrum er útlátalaust. Það ætti því að vera eitt helsta verkefni íslenskra ráðamanna að rækta vináttu við þá erlendu ráðamenn, sem áhuga hafa á Íslandi og getu til liðveislu.

Gott dæmi er til frá fyrri tíð um, hversu miklu máli vinarþel einstaklinga getur skipt Ísland. Haustið 1807 áttu Bretar í stríði við Napóleon, sem Danakonungur fylgdi að málum, og hertóku þeir þau kaupskip frá Íslandi, sem þeir náðu í. Á einu skipanna var Magnús Stephensen háyfirdómari, og komst hann síðan til Kaupmannahafnar. Magnús sá fram á ófremdarástand, einangrun landsins, skort á nauðsynjum, jafnvel hungursneyð.

Magnús mundi nú eftir breskum heldri manni, sem komið hafði til Íslands 1772 og heimsótt föður hans, en Magnús var þá aðeins tíu ára drenghnokki. Þetta var Sir Joseph Banks, forseti Breska vísindafélagsins og góðvinur margra voldugustu manna Bretaveldis. Magnús skrifaði Sir Joseph, sem kannaðist vel við bréfritarann, enda hafði hann skrifast á við föður hans eftir Íslandsförina. Brást Sir Joseph vel við og fékk Breta til að sleppa kaupskipum frá Íslandi.

Sir Joseph Banks átti líka drjúgan þátt í því, að Bretar ákváðu með konunglegri tilskipun 7. febrúar 1810 að skilgreina Ísland sem hlutlaust, vinveitt land, sem nyti verndar Bretaveldis. Líklega er þessi tilskipun einsdæmi: Ísland var hjálenda Danmerkur, sem Bretar áttu í stríði við. Á ögurstund geta vinir í háum stöðum ráðið úrslitum. Sir Joseph Banks var slíkur vinur.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 30. maí 2015. Sú réttmæta athugasemd var gerð við pistilinn í tölvuskeyti til mín, að ekki mætti gleyma hlut Bjarna Sívertsens í að bæta úr nauð Íslendinga. Hann vann af miklum dugnaði að því að leysa vandann. En ekki má heldur gleyma sambandi Magnúsar og Sir Josephs, sem greiddi mjög fyrir málinu. Myndin er af Sir Joseph.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband