Kardínálinn aftur á ferð

154px-vilhelm_sabinalaisen_sinetti.jpgÍslenska þjóðveldið er eins og svissneska samveldið merkilegt fyrir það, að það fól í sér sjálfstjórn frjálsra jafningja. Adam frá Brimum sagði fullur aðdáunar, að hjá Íslendingum væru lögin konungur. Eflaust á þessi stjórnmálahugsun rætur að rekja til sjálfstjórnar germönsku ættbálkanna, sem bjuggu norðan Rómaveldis og Tacítus lýsir stuttlega í bók sinni, Germaníu. En suður í álfu voru aðrar stjórnmálahugmyndir á kreiki. Þær voru um það, að menn væru ójafnir og skyldu skiptast í þegna og drottna. Lögin væru ekki sammæli jafningja, heldur fyrirmæli konungs og ráðgjafa hans. Þessar suðrænu hugmyndir sjást vel af ummælum eins helsta sendimanns Rómarpáfa, Vilhjálms kardínála af Sabína, sem staddur var við hirð Hákonar gamla í Noregi 1247. Þegar hann var beðinn að miðla málum á Íslandi, kvað hann ósannlegt, að „land það þjónaði ekki undir einhvern konung sem öll önnur lönd í veröldinni“.

Vilhjálmur kardínáli kom víðar við en í Noregi til að flytja svipaðan boðskap. Þegar ég var nýlega á ferð í Eistlandi, notaði ég tækifærið til að grúska í gömlum eistneskum sögubókum. Þar rakst ég á frásagnir um ferð Vilhjálms kardínála þangað í erindum páfa. (Hann var þar kallaður Vilhjálmur af Módena, en við þann stað var hann fyrst kenndur.) Var Vilhjálmur staddur í Eistlandi árið 1225-6 og átt þátt í að sætta eistneska þjóðflokka og baltneska baróna af þýskum ættum „með því að hvetja Eista til að bera ok sitt af undirgefni og drottnara þeirra til að gæta þess, að þetta ok yrði ekki of þungt“, eins og segir í gömlum kirkjusögum. Hér getur að líta hina suðrænu hugmynd um, að frjálsir jafningjar mættu ekki stjórna sér sjálfir, heldur skyldu yfir þá settir aðalsmenn og jafnvel konungar, sem stjórnuðu af Guðs náð og eftir skorðuðu stigveldi. Þegnar ættu að vera hlýðnir, en drottnar mildir. Treysta skyldi á valdið frekar en frelsið.

Íslendingar kannast við annað afbrigði af þessari hugmynd, þegar norskur hirðmaður, Loðinn leppur, reyndi að fá Jónsbók samþykkta á þingi 1281. Bændur voru tregir til og settu ýmis skilyrði, en Loðinn leppur brást þá hinn versti við og sagði búkarla gera sig digra. Þeir ættu að játa Jónsbók óbreyttri, en treysta síðan á náð konungs um einstök atriði, sem þeim þættu miður fara. Og þessar hugmyndir eru enn á kreiki. Þeir, sem vilja aðild að Evrópusambandinu, segja, að við Íslendingar verðum að gangast undir meginreglur þess um óheftan aðgang allra aðildarþjóða að auðlindum okkar, en að við getum síðan treyst því, að tekið verði tillit til svæðisbundinna hagsmuna okkar. Við eigum með öðrum orðum ekki að standa á rétti okkar, heldur treysta náðinni — eins og Vilhjálmur af Sabína og Loðinn leppur sögðu forðum.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 23. maí 2015.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband