10.6.2015 | 01:57
Brandes og Cobban gera lítið úr Íslendingum
Nokkrir útlendir fræðimenn, sumir jafnvel vinsamlegir Íslendingum, hafa efast um, að þeir fái staðið undir sjálfstæðu ríki. Frægt varð viðhorf danska rithöfundarins Georgs Brandesar. Hann hafði mælt fyrir minni Íslands árið 1900 og sagt, að ekki kæmi að sök, hversu fáir þeir væru. Sauðir væru að vísu fleiri en menn á Íslandi, en svo væri einnig í Danmörku, þótt í öðrum skilningi væri. En þegar Einar Benediktsson krafðist sérstaks fána fyrir Ísland í viðtali við danskt blað 1906, sneri Brandes við blaðinu og skrifaði háðsgrein í Politiken 16. desember um, að Amager ætti að óska eftir sjálfstæði og hafa eigin fána. Margir eru þeirrar skoðunar, að skærlit gulrót á spínatgrænum fánafleti væri einkar þekkileg.
Ef til vill er á vitorði færra, að hinn kunni breski sagnfræðingur Alfred Cobban gerði lítið úr íslensku þjóðríki í bók, sem hann birti 1944 um sjálfsákvörðunarrétt þjóða (National Self-Determination, Oxford University Press). Cobban andmælti þar hugmyndinni um þjóðríkið, að hver þjóð ætti að mynda sjálfstætt ríki. Sérstaklega væri hún óraunhæf, þegar um smáþjóð væri að ræða (bls. 74). Ef við tökum dæmi, er þá raunhæft að trúa því, að orðið verði eða verða ætti við sjálfstæðiskröfum íbúa Wales, Hvíta-Rússlands, Elsass eða Flandurs með viðurkenningu sérstakra ríkja þeirra? Ætti franska Kanada að mynda sérstakt ríki? Myndi Möltubúum vegna betur sem þjóð, ef þeir slitu tengslin við Breta og reyndu að stofna sjálfstætt ríki án nokkurs tillits til fyrirætlana grannríkja við Miðjarðarhaf? Hefur Ísland efni á því að vera án efnahagslegra tengsla við eitthvert stærra og auðugra ríki?
Nú kunna ýmsir að telja Cobban óspámannlega vaxinn, því að Hvíta-Rússland og Malta eru þegar sjálfstæð ríki og öflugar aðskilnaðarhreyfingar starfa í franska Kanada (Quebec) og á Flandri. En auðvitað er Hvíta-Rússland mjög háð Rússlandi, og Malta hefur að miklu leyti afsalað sér fullveldi með aðild að Evrópusambandinu. En þegar Cobban skrifaði þessi orð, hafði Ísland verið fullvalda ríki í 26 ár. Það þurfti auðvitað eins og öll smáríki stuðning, vináttu og viðskipti við stærri þjóðir, en þetta hlaut ekki eins og Cobban virtist gera ráð fyrir að einskorðast við eitthvert eitt ríki, einn ráðríkan Stóra bróður. Jón Sigurðsson svaraði Cobban vel löngu áður í ritgerðinni Um skóla á Íslandi í Nýjum félagsritum 1842 (bls. 146-7): Þá hefir menntunin verið mest, þegar mestar hafa verið utanferðir og Íslendingar átt mest viðskipti við önnur lönd; þó ekki við eitt land, heldur mörg.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 16. maí 2015.)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook