9.6.2015 | 21:31
Furðuskrif um sjálfstæðisbaráttuna
Svo virðist sem allt megi segja um Íslendinga erlendis. Kristín Loftsdóttir skrifar í nýútkomnu greinasafni um bankahrunið, Gambling Debt, bls. 6-7: Um miðja nítjándu öld var Ísland eitt af fátækustu löndum Evrópu. Þótt það væri fjárhagsleg byrði á Danmörku, hafði það barist fyrir sjálfstæði í heila öld. Lokabaráttan hófst um miðja nítjándu öld undir áhrifum íslenskra stúdenta í Kaupmannahöfn, sem mótuðust af þjóðernisstefnu í Evrópu. Á þessum tíma voru miðaldabókmenntir Íslendinga (sögurnar) og tungan helstu þættirnir í því að skapa sérstaka íslenska þjóðarvitund.
Þetta er allt rangt nema það, að Ísland var fátækt. Sjálfstæðisbaráttan hafði ekki staðið í heila öld í kringum 1850, heldur hófst hún um þetta leyti, ekki síst með Hugvekju til Íslendinga eftir Jón Sigurðsson 1848.
Í öðru lagi var Ísland ekki fjárhagsleg byrði á Danmörku, þótt vissulega hafi gjöld danska ríkissjóðsins vegna Íslands verið talsvert hærri en tekjur af landinu um miðja nítjándu öld. En eins og Jón Sigurðsson reiknaði út, hafði Danmörk verið fjárhagsleg byrði á Íslandi vegna einokunarverslunarinnar og eignarnáms konungs á jörðum.
Í þriðja lagi háðu stúdentar í Kaupmannahöfn ekki sjálfstæðisbaráttuna, þótt þeir styddu hana langflestir, heldur meiri hluti Alþingis undir forystu Jóns Sigurðssonar og aðrir stuðningsmenn hans, þar á meðal Tryggvi Gunnarsson og Þorlákur Ó. Johnson.
Í fjórða lagi var sérstök íslensk þjóðarvitund ekki sköpuð á nítjándu öld, heldur hafði hún verið til frá öndverðu. Þegar Haraldur blátönn Danakonungur gerði íslenskt skip upptækt á síðari helmingi tíundu aldar, ortu Íslendingar um hann níðvísur. Þegar sænsk kona hafði orð á því við Sighvat Þórðarson 1018, að hann væri dökkeygari en gerðist í Svíþjóð, orti hann um hin íslensku augu sín. Íslendingar gerðu þegar árið 1022 sáttmála við Noregskonung um rétt sinn í Noregi. Íslendingar litu aldrei á sig sem Norðmenn og því síður Dani.
Í fimmta lagi hafði Arngrímur lærði þegar á öndverðri sautjándu öld bent á, að Íslendingar gætu verið hreyknir af bókmenntum sínum og tungu. Þetta var því ekkert nýtt.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 9. maí 2015.)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook