9.6.2015 | 09:58
Kílarfriður enn í gildi?
Þegar Svíar fengu Noreg í sárabætur fyrir Finnland með friðarsamningnum í Kíl 1814, fylgdu ekki með hin fornu norsku skattlönd í Norður-Atlantshafi, Ísland, Færeyjar og Grænland. Ég hef áður sagt frá skemmtilegri skýringu á því, sem er ekki beinlínis ósönn, en getur samt ekki verið allur sannleikurinn. Hún er, að sænski samningamaðurinn í Kíl, Gustaf af Wetterstedt, hafi ekki vitað, að þessi þrjú eylönd hafi verið norsk skattlönd. Það kemur fram í bréfi hans til sænska utanríkisráðherrans, sem flýtti sér hins vegar að leiðrétta hann.
Auðvitað getur vanþekking sænsks samningamanns ekki verið fullnaðarskýring. Aðalatriðið hlýtur að vera, eins og prófessor Harald Gustafsson í Lundi hefur bent á, að Svíar ásældust ekki þessi þrjú fjarlægu og fátæku eylönd í Norður-Atlantshafi. Þótt þeir gerðu engar kröfur um þau, fannst hinum slynga danska samningamanni, Edmund Bourke greifa, vissara að setja sérstakt ákvæði í friðarsamninginn um, að eylöndin þrjú fylgdu ekki Noregi.
Þess hefur verið getið til, að Bretar hafi ráðið þessum málalyktum. Þeir hafi ekki kært sig um, að voldugt ríki eins og Svíþjóð réði eylöndunum í Norður-Atlantshafi, sem breski flotinn taldi sitt yfirráðasvæði. Að vísu finnast engar heimildir um þetta, svo að ég viti, en víst er, að áhugi Breta á Íslandi hefur ætíð verið neikvæður: Þeir hafa sjálfir ekki viljað leggja Ísland undir sig, en ekki heldur kært sig um, að önnur ríki Evrópu gerðu það.
Er í Kílarfriðnum 1814 fólgin vísbending til okkar nútímamanna? Ef svo er, þá er hún, að Ísland eigi ekki að reyna að verða hluti af meginlandi Evrópu, heldur miklu frekar halda áfram að vera sérstakt eyland í Norður-Atlantshafi. Það eigi helst heima með öðrum löndum Norður-Atlantshafs, Stóra-Bretlandi, Noregi, Kanada og Bandaríkjunum að ógleymdum Færeyjum, Írlandi og Grænlandi. Var mat Svía fyrir 201 ári rétt?
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 2. maí 2015. Hér að neðan er leiðakerfi Icelandair.)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook