Mario Vargas Llosa

vargasllosa.jpgPerúski rithöfundurinn Mario Vargas Llosa, sem hlaut Nóbelsverðlaun í bókmenntum 2010, var heiðursgestur svæðisþings Mont Pelerin samtakanna í Lima í Perú, sem ég sótti í mars 2015. Þau eru alþjóðleg samtök frjálslyndra fræðimanna, og sat ég þar í stjórn 1998–2004, auk þess sem ég skipulagði svæðisþing þeirra í Reykjavík 2005. Vargas Llosa er frábær rithöfundur, en því miður er eftirlætisbók mín eftir hann, Veisla geithafursins (La fiesta del chivo), enn ekki komin út á íslensku.

Vargas Llosa er hávaxinn maður, fríður sýnum, hvíthærður, með afbrigðum höfðinglegur í fasi. Hann er kominn fast að áttræðu, en ber aldurinn vel. Hann flutti ræðu á ráðstefnunni og tók líka þátt í dagskrá utan funda, til dæmis útreiðarferð á búgarði nálægt Lima og dansleik í ráðstefnulok, en þá bauð hispursmær honum upp fyrstum ráðstefnugesta, og lét hann sér það vel líka. Það var fróðlegt að heyra Vargas Llosa lýsa skoðanaskiptum sínum, en hann var kommúnisti ungur, en hefur síðustu fjörutíu árin verið yfirlýstur frjálshyggjumaður. Hann kvaðst hafa verið lestrarhestur alla tíð, en tvær bækur hefðu haft mest áhrif á sig.

Önnur var Úr álögum (Out of the Night) eftir Jan Valtin, öðru nafni Richard Krebs, en hún kom út á íslensku í tveimur hlutum 1941 og 1944. Er löng saga af útkomu hennar, sem ég segi í ritinu Íslenskum kommúnistum 1918–1998. Vargas Llosa sagðist hafa dáðst að söguhetjunni fyrir eldmóð í baráttunni fyrir bættum kjörum alþýðu.

Hin bókin var Opið skipulag og óvinir þess (The Open Society and Its Enemies) eftir Karl Popper, einn af stofnendum Mont Pelerin samtakanna. Vargas Llosa kvaðst hafa komist í eins konar andlega vímu, þegar hann las hana. Popper færði sterk rök gegn alræðisstefnu Marx og tilraunum til að gerbreyta þjóðskipulaginu í einu vetfangi.

Kjarni frjálshyggjunnar að sögn Vargas Llosa væri umburðarlyndið, sem sprytti af vitundinni um skeikulleika mannanna.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 25. apríl 2015. Ég breytti hér bókartitli Vargas Llosa eftir ábendingu Arnar Ólafssonar. Þetta er auðvitað ekki geit, heldur geithafur, sem getur verið táknmynd greddu, eins og allir skilja, sem lesið hafa bókina.)

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband