8.6.2015 | 23:31
Sjálftaka eða þátttaka?
Þegar ég dvaldist í Perú á dögunum leitaði enn á hugann, hvers vegna sumar þjóðir eru fátækar og aðrar ríkar. Þótt Perúmönnum hafi gengið tiltölulega vel síðasta aldarfjórðung eftir miklar umbætur á öndverðum tíunda áratug tuttugustu aldar, hafa þeir löngum verið fátækir og eru enn. Eitt skynsamlegasta svarið, sem ég hef fundið við þessari spurningu, er í bókinni Þess vegna vegnar þjóðum illa (Why Nations Fail) eftir Daron Acemoglu í MIT og James Robinson í Harvard, sem út kom 2012. Í fæstum orðum er þetta svar, að gæfumun þjóða geri, hvort skipulagið einkennist af sjálftöku (extraction) eða þátttöku (inclusion).
Höfundar bera saman suður- og norðurhluta þorpsins Nogales á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkós. Norðan megin er miklu meiri velsæld. Samt eru íbúar beggja hluta af sama uppruna og steinsnar hverjir frá öðrum. Ástæðan er sú að Bandaríkin byggðust innflytjendum, sem stofnuðu ríki til að tryggja frelsi sitt og fá að stjórna sér sjálfir. Þar er skipulag þátttöku. Í Mexíkó stóð hins vegar fyrst veldi Asteka, og þegar Spánverjar hertóku landið, gerðist ekki annað en það, að gamla valdastéttin, sem hafði kúgað íbúana og arðrænt, þokaði fyrir nýrri valdastétt, sem hélt áfram að kúga íbúana og arðræna. Þar er skipulag sjálftöku. Hið sama gerðist í Perú. Þar stóð veldi Inka, og þeir drottnuðu yfir öðrum íbúum landsins, kúguðu þá og arðrændu. Síðan lögðu Spánverjar Inkaveldið undir sig, og þeir tóku sess Inkanna, reyndu að gera allan umframarð upptækan.
Acemoglu og Robinson vísa þeirri algengu skoðun á bug, að gömlum breskum nýlendum vegni almennt betur en gömlum nýlendum annarra Evrópuþjóða. Benda þeir á, að allur gangur sé á því. Þeim gömlu bresku nýlendum vegni vel, þar sem landið hafi verið að mestu leyti tómt áður, en byggst innflytjendum og búið við bresk lög, til dæmis Ástralíu, Nýja Sjálandi og Kanada. Þar myndaðist skipulag þátttöku. En öðrum breskum nýlendum vegni miður, til dæmis Indlandi, Ghana og Nígeríu, þar sem bresku nýlenduherrarnir hafi lítt hreyft við sjálftöku hefðbundinna valdastétta. En hvað er til ráða, ef greining Acemoglous og Robinsons er rétt? Það er ekki að reyna að gera hina fátæku ríkari með því að gera hina ríku fátækari, enda mistekst það alltaf, heldur að skapa skilyrði til þess, að allir geti orðið ríkari, líka hinir fátæku.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 18. apríl 2015.)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 29.6.2018 kl. 08:16 | Facebook