Hinn stígurinn

hhg_lima_2015.jpg

Dreifing eigna og tekna hefur löngum verið mjög ójöfn í Perú, þar sem ég dvaldist nýlega um skeið. Andspænis fámennri yfirstétt af spænskum ættum stendur allur fjöldinn, sem er aðallega kominn af indjánum, en hefur blandast nokkuð evrópskum innflytjendum. Þetta fólk býr í fátækrahverfum umhverfis höfuðborgina Lima og í frumstæðum sveitaþorpum uppi til fjalla og inni í frumskóginum. Eirðarlausir menntamenn hljóta því að telja hér frjósaman jarðveg fyrir byltingarboðskap Karls Marx. Einn þeirra var Abimael Guzmán, heimspekiprófessor og maóisti. Hann skipulagði hryðjuverkahóp seint á áttunda áratug, „Skínandi stíg“ (Sendero Luminoso). Ódæði hans beindust ekki aðeins að stjórnvöldum, heldur líka alþýðufólki, sem talið var þeim hliðhollt. Þeir Guzmán lögðu undir sig afskekkt svæði í Perú og stjórnuðu þar harðri hendi, eins og lýst er í Svartbók kommúnismans. Talið er að þeir hafi alls drepið um þrjátíu þúsund manns.

Árið 1988 gaf verkfræðingurinn Hernando de Soto hins vegar út bókina Hinn stíginn (El Otro Sendero). Þar hélt hann því fram að búa þyrfti alþýðu Perús skilyrði til að brjótast úr fátækt. De Soto sagði snautt fólk ráða yfir talsverðu fjármagni, en þetta fjármagn væri oft „dautt“ í þeim skilningi að það væri ekki skráð, veðhæft eða seljanlegt. Leiðin til bjargálna væri því torfær. Rétta ráðið væri að opna hagkerfi Perús, auðvelda frjáls viðskipti, einfalda reglur um stofnun smáfyrirtækja og viðurkenna eignarrétt fátæks fólks á ýmsum eignum utan hins hefðbundna hagkerfis. Rithöfundurinn Mario Vargas Llosa tók undir með de Soto og bauð sig fram til forseta 1990. Annar frambjóðandi, Alberto Fujimori, sigraði naumlega. Eftir forsetakjörið kvaddi Fujimori de Soto óvænt til ráðgjafar og framkvæmdi nær allar tillögur hans, og hefur síðan verið mikill uppgangur í Perú. Jafnframt herti Fujimori baráttuna gegn Skínandi stíg, og var Guzmán gómaður árið 1992. Hefur síðan verið sæmilegur friður í landinu. Fujimori spilltist hins vegar af valdinu, braut stórlega af sér og situr nú í fangelsi, þótt flestir Perúbúar séu samkvæmt skoðanakönnunum þakklátir honum fyrir að velja hinn stíginn fyrstu árin á forsetastól.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 11. apríl 2015.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband