Hugleiðingar í Machu Picchu

hhg_machupicchu.jpg

Merkilegt var að koma á dögunum til Perú og skoða fornar Inkaborgir, Cusco, sem var höfuðborg, þegar Spánverjar komu til landsins, og Machu Picchu, hina yfirgefnu og týndu borg uppi í háfjöllum Andes. Sjálfir fundu Spánverjar aldrei Machu Picchu, sem virðist helst hafa þjónað trúarlegum þörfum Inkanna. Rifjaðist nú upp fyrir mér, að ungur las ég í enskri þýðingu rit, sem Ludwig von Mises hafði mælt með, Sósíalistaveldi Inkanna (L'Empire socialiste des Inka) eftir franska lögfræðinginn Louis Baudin, en það kom fyrst út 1928. Baudin lýsti rækilega skipulagi Inkaveldisins: Þar urðu allir að vinna, en einnig var séð fyrir lágmarksþörfum allra. Þéttriðið veganet var lagt um landið og fullar kornhlöður stóðu á vegamótum. Afkomuöryggi var því sæmilegt, en einstaklingsfrelsi ekkert. Inkarnir stjórnuðu harðri hendi. Allir í sömu stöðu urðu að klæðast sams konar fatnaði, trúa á sömu guði og tala sömu tungu. Allir urðu að ganga í hjónaband og eignast börn. Allt frumkvæði var miskunnarlaust barið niður og dauðarefsing lá við flestum brotum. Frjálst starfsval var ekki til og einnig urðu þegnar Inkanna reglulega að vinna það, sem má ýmist kalla þegnskylduvinnu eða þrælkun. Þótt Inkaveldið væri víðlent og voldugt var það frumstætt um margt. Inkarnir höfðu hvorki fundið upp hjólið né nothæft ritmál.

Öndvert við Baudin og von Mises hafa sumir fræðimenn efast um, að kenna megi Inkaveldið við sósíalisma, sem sé miklu nýrra orð og tákni sjálfstjórn og sameign fjöldans, en í Inkaveldinu hafi allt í raun verið í eigu Inkanna. Þar hafi verið fastskorðuð stéttaskipting. Þetta er auðvitað rétt, en þegar einkaeignarréttur er afnuminn hlýtur að myndast skipulag líkt Inkaveldinu. „Hin nýja stétt“ eignast þá í raun gæðin. Og hún stundar víða mannfórnir. Í hreinsunum sínum sendi Stalín héraðsstjórum tilskipanir um að drepa tiltekinn fjölda fólks. Ekki þarf að minna á Maó og Pol Pot. Í ríki Inkanna tóku mannfórnir á sig trúarlega mynd. Ég heimsótti gamalt musteri, sem Inkarnir höfðu reist nálægt Lima, Pachacamac. Í tíð Inkanna var óspjölluðum stúlkum fórnað þar. Þeim voru fyrst gefin deyfilyf og þær síðan kyrktar. Spánverjar lögðu Inkaveldið undir sig 1532. Þeir gengu hart fram, undirokuðu og arðrændu sömu þjóðflokka og Inkarnir. En líklega var stjórnarfar eftir það skömminni skárra en í tíð Inkanna.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 4. apríl 2015.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband