7.6.2015 | 12:14
Sömdu Svíar af sér Ísland?
Með ólíkindum er, hversu hljóðlega og átakalaust Ísland fylgdi Danmörku í Kílarfriðnum, sem saminn var 14. janúar 1814, en þá var Danmörk neydd til að láta Noreg af hendi við Svíþjóð. Með Gissurarsáttmála 1262 höfðu Íslendingar þrátt fyrir allt játast undir Noregskonung, og um skeið á fjórtándu öld var Ísland í konungssambandi við Svíþjóð eina, hvorki við Noreg né Danmörku. Þótt Íslandi væri stjórnað frá Kaupmannahafn, var landið jafnan talið ásamt Grænlandi og Færeyjum til skattlanda Noregskonungs.
Skýringin er ótrúleg. Samningamaður Dana í Kíl var Edmund Bourke greifi, snjall maður og slægvitur. Hann hafði fengið fullt umboð Friðriks VI. Danakonungs til að láta Noreg allan af hendi. En honum tókst að setja sérstakt ákvæði inn í 4. grein samningsins, þar sem kveðið var á um, að Danakonungur afsalaði sér yfirráðum yfir Noregi öllum til Svíakonungs að Grænlandi, Færeyjum og Íslandi undanskildum. Svo virðist sem samningamaður Svía í Kíl, Gustaf af Wetterstedt, hafi ekki vitað, að þessi þrjú skattlönd voru í upphafi norsk. Þetta sést af bréfi, sem Wetterstedt skrifaði sænska utanríkisráðherranum í Stokkhólmi tveimur dögum síðar. Það er á frönsku, en kaflinn um Ísland hljóðar svo (í þýðingu úr Skírni 1888): Þó að Ísland, Grænland og Færeyjar hafi aldrei heyrt til Noregi, þá hefur herra Bourke beðið um, að þeirra væri sérstaklega minnst í 4. grein samningsins, og mér hefur fundist, að ég ætti ekki að neita honum um það.
Þótt vanþekking hins sænska samningamanns sé hrópleg, er hún áreiðanlega líka dæmi um áhugaleysi Svía á hinum norsku skattlöndum í Norður-Atlantshafi. Ísland þótti svo lítils virði, að hvorki Svíar né Bretar lögðu það undir sig, þótt bæði ríkin hefðu á því færi. En því má velta fyrir sér, hver framvindan hefði orðið, hefðu Svíar tekið við Noregi ásamt fornum skattlöndum þess 1814, en ekki samið þau af sér. Hefði Ísland þá orðið fullvalda ríki í konungssambandi við Noreg 1905, þegar Norðmenn sögðu upp konungssambandinu við Svía?
[Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 7. mars 2015. Þau Anna Agnarsdóttir prófessor og Björn Bjarnason, fyrrv. menntamálaráðherra, hafa bæði haft samband við mig til að segja, að ef til vill hafi kaupin ekki verið þessi á eyrinni: Bretar hafi ráðið því, að skattlöndin í Norður-Atlantshafi hafi gengið undir Danmörku frekar en Svíþjóð. Er von á ritgerð eftir Önnu um þetta, sem gaman verður að lesa, en fyrir mér er þetta ráðgáta. En myndin í horninu af hinu hrjóstuga landi er: Jeff Schmaltz, MODIS Land Rapid Response Team, NASA GSFC]
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:15 | Facebook