Til hvers var Gissurarsáttmáli?

Einn samkennari minn, Baldur Þórhallsson, fyrrverandi varaþingmaður Samfylkingarinnar, er umsjónarmaður rannsóknarverkefnis um „leitina að skjóli“. Hann heldur því fram, að Íslendingar hafi gert Gissurarsáttmála (eins og fræðimenn vilja kalla sáttmálann frá 1262, en Gamli sáttmáli var gerður 1302) til að hafa skjól af Noregskonungi. Þeir hafi viljað stofna framkvæmdarvald til að binda enda á langvinnt borgarastríð og einnig viljað tryggja verslun við landið.

Stenst fyrri skýringin? Árið 1262 var kominn á friður í landinu, því að Gissur jarl Þorvaldsson hafði sigrað keppinauta sína. Borgarastríðinu var lokið. Sennilegra er, að Gissur hafi viljað eignast öflugan bakhjarl í Noregskonungi. Jarlar þarfnast konunga, þótt þjóðir geti verið án þeirra. Næstu aldir var konungsvald þó mjög veikt á Íslandi. Tveir hirðstjórar konungs voru jafnvel drepnir, Jón skráveifa og Smiður Andrésson, að ógleymdum Jóni Gerrekssyni. Ekkert skjól reyndist í Noregi, sem hafði ekki einu sinni afl til að halda uppi sjálfstæðu ríki eftir Svarta dauða um miðja fjórtándu öld. Þótt konungsvald styrktist hér upp úr siðaskiptum, var Ísland áfram óvarið, eins og Tyrkjaránið 1627 og hundadagastjórn Jörundar 1809 sýndu. Ekkert skjól reyndist heldur í Danmörku, sem sneri sér inn á við eftir herfilegan ósigur fyrir Þjóðverjum 1864. „Hvad udad tabes, skal indad vindes,“ orti Hans Peter Holst. Úti fyrir tapað, inni endurskapað.

Seinni skýringin er áreiðanlega rétt. Ella hefði ekki verið ákvæði í Gissurarsáttmála um, að konungur myndi tryggja siglingu sex skipa á ári. En hvers vegna þurfti slíkt ákvæði? Framboð skapast, þar sem er eftirspurn. Ég kem auga á tvennt. Í fyrsta lagi hafi íslenskir valdamenn haldið uppi svo ströngu verðlagseftirliti á 13. öld, að norskir kaupmenn hafi ekki lengur séð sér hag í að versla við Íslendinga. Í öðru lagi hafi aðalútflutningsafurðin, vaðmál, fallið í verði, væntanlega vegna minni eftirspurnar erlendis. Fljótlega varð fiskur að vísu aðalútflutningsafurðin. En þá aðstoðaði hinn erlendi konungur innlenda stórbændur við að stöðva viðgang sjávarútvegs. Skjólið reyndist gildra.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 21. febrúar 2015.)

[Páll Bergþórsson veðurfræðingur gerir þá athugasemd, að kólnun hafi valdið einhverju um lítinn áhuga á siglingum til Íslands. Hann hefur áreiðanlega rétt fyrir sér um það, að loftslag og veðurfar hafa haft sitt að segja um ýmsa viðburði Íslandssögunnar, til dæmis landnámið (Ísland var miklu byggilegra þá en oft síðan) og landafundina í Vesturheimi (eflaust var gróðurfar og loftslag þar betra á hlýindaskeiðinu um 1000). En loftslagið breytir ekki því, að verð ræður mestu um vilja manna til siglinga. Menn sigla, ef það borgar sig, hvort sem kalt er eða hlýtt.]


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband