Marx og Engels um Íslendinga

karl-marx-in-shades.jpgÍslenskum marxistum brá nokkuð, þegar ég upplýsti í Morgunblaðinu 17. febrúar 1979, að í miklu austur-þýsku ritsafni þeirra Karls Marx og Friðriks Engels væri á einum stað minnst á Íslendinga og heldur sneytt að þeim. Það var í ómerktri grein eftir Engels í Nýja Rínarblaðinu (Neue Rheinische Zeitung) 10. september 1848, en Marx var ritstjóri. „Norðurlandahugsjónin er ekkert annað en hrifning af hinni ruddalegu, óþrifnu, fornnorrænu sjóræningjaþjóð,“ skrifaði Prússavinurinn Engels um vopnahlé Dana og Prússa, en rætt hafði verið um það, að aðrar Norðurlandaþjóðir kæmu Dönum til hjálpar gegn ofureflinu. „Íslendingar töldu allar þjóðirnar þrjár úrkynjaðar, enda er sú þjóð auðvitað mesta Norðurlandaþjóðin, sem er frumstæðust og líkust hinni fornnorrænu í öllum siðum og háttum.“ Árni Bergmann svaraði því til í Þjóðviljanum, að Halldór Laxness lýsti Íslendingum svipað í Gerplu.

Óskar Bjarnason gróf síðan upp nokkur ummæli Marx og Engels um Íslendinga, sem ekki höfðu birst á prenti að þeim lifandi. Í lok fyrsta kafla Þýsku hugmyndafræðinnar skrifuðu þeir kumpánar veturinn 1845–1846 um ýmsa nýja siði, sem landnemar flytji með sér, áður en þeir hafi rutt eldri siðum úr vegi. „Þetta gerist í öllum nýlendum, nema þær séu einvörðungu bækistöðvar hers eða verslunar. Dæmi um þetta eru Karþagó, grísku nýlendurnar og Ísland á 11. og 12. öld.“ Hér minntust þeir fremur vinsamlega á Ísland. En í desember 1846 skrifaði Engels einum vini sínum frá París, að ekki væri hann hrifinn af Norðurlandaþjóðum. „Svíar lítilsvirða Dani sem þýsk-mengaða, úrkynjaða, rausgjarna og veikgeðja. Norðmenn fyrirlíta fransk-mengaða Svía með sinn aðal og gleðjast yfir því að í Norge sé einmitt þetta sama fávísa bændaþjóðfélag og á tímum Knúts ríka. Þeir eru aftur á móti svívirtir af Íslendingum, sem enn tala alveg sömu tungu og þessir subbulegu víkingar frá anno 900, súpa lýsi, búa í jarðhýsum og þrífast ekki nema loftið lykti af úldnum fiski. Ég hef oftsinnis freistast til þess að vera stoltur af því að vera þó ekki Dani, hvað þá Íslendingur, heldur bara Þjóðverji.“ Þessa skoðun endurtók Engels síðan í blaðagreininni, sem ég rifjaði upp 1979.

Loks er þess að geta, að Bruno nokkur Bauer heimsótti Marx í Lundúnum 12. desember 1855. Þegar Bauer sagði, að enska hefði spillst af frönsku, svaraði Marx, eins og hann skrifaði síðar Engels: „Ég tjáði honum þá til huggunar, að Hollendingar og Danir segðu það sama um þýskuna og að „Íslendingar“ væru hinir einu sönnu ómenguðu piltungar.“ Og þá vitum við það.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 20. desember 2014.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband