5.6.2015 | 14:40
Ferð til Nýju Jórvíkur
Þótt sérviska þyki á Íslandi að kalla New York Nýju Jórvík, laga margar þjóðir þetta staðarnafn að tungum sínum. Portúgalir segja til dæmis Nova Iorque og Spánverjar Nueva York. Í öndverðum október árið 2014 átti ég einu sinni sem oftar leið um þessa borg borganna, einn 54 milljóna árlegra gesta. Borgin er stundum kölluð stóra eplið (big apple), eftir að bandaríski rithöfundurinn Edward S. Martin birti bók um hana 1909. Kansas-búar sjá gráðuga borg í Nýju Jórvík, skrifaði Martin þá. Þeir telja, að stóra eplið drekki í sig óeðlilega mikið af þjóðarsafanum. Margir aðrir hafa haft orð á lífsgæðakapphlaupi borgarbúa, græðgi þeirra og ágirnd, til dæmis Einar Benediktsson:
Mér fannst þetta líf allt sem uppgerðarasi
og erindisleysa með dugnaðarfasi.
Þeir trúa með viti í Vesturheim.
Viltu sjá þjón fyrir herrum tveim,
þá farðu í Fimmtutröð.
Fimmtatröð var Fifth Avenue, en herrarnir tveir Guð og mammón, hinn sýrlenski guðs auðsins. Einar vék einnig heldur óvirðulega að siðum og háttum borgarbúa:
Og jórturleðrið er jaxlað hraðar
í Jórvík nýju en annars staðar.
Raunar er miðstöð fjármálaheimsins ekki á Fimmtutröð, heldur í Garðastræti, eins og íslenskulegast væri að nefna Wall Street suðaustarlega á Manhattan-eyju. Skrifa ég stundum fyrir Garðastrætisblaðið, Wall Street Journal.
Morgunblaðið skýrði frá því 8. júlí 1939, að Fiorello La Guardia, borgarstjóri Nýju Jórvíkur 19331945, hafi mælt í ræðu við opnun Íslandsdeildar Heimssýningarinnar vorið 1939: Stærsta borg heims flytur mestu þjóð heims kveðju sína. Eitthvað kann að vera hér ofsagt, nema ef borgarstjórinn hefur átt við það, að líklega eru Íslendingar sú þjóð heims, sem er mest þjóð, fullnægir best hefðbundnum skilyrðum fyrir því. Og vissulega er allt stórt í sniðum í Nýju Jórvík. Eggert Stefánsson söngvari spurði, þegar hann sigldi inn í hafnarmynnið og sá styttuna af frelsisgyðjunni: Hvur er þessi stóra stelpa? Eftir vesturför sagði Eiríkur Ketilsson heildsali við félaga sína í kaffi á Hótel Borg: Blessaðir verið þið, New York er alveg ómöguleg borg. Hugsið ykkur að labba niður Fifth Avenue, rekast á 300 manns og geta ekki rægt einn einasta. En líklega er þetta einn helsti kosturinn á Nýju Jórvík: Þar er ekki spurt, hvað maður hafi gert, heldur hvað hann geti gert.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 13. desember 2014.)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:42 | Facebook