1.4.2007 | 05:06
Evra, dalur, króna eða krónur?
Fugl viskunnar tekur sig ekki á loft, fyrr en en rökkva tekur, sagði Hegel. Við skiljum ekki, hvað gerst hefur, fyrr en liðið er. Þegar við fáum nýja hugmynd, sem við teljum snjalla, er eins víst, að veruleikinn hafi þegar framkvæmt hana, ef til vill í annarri gerð. Eitt dæmi er, þegar ég mælti með því upp úr 1980 að kasta krónunni og taka upp annan gjaldmiðil og nefndi í því sambandi Bandaríkjadal. Í upphafi níunda áratugar voru augljós rök fyrir því að skipta um gjaldmiðil. Þrálát verðbólga hafði verið á Íslandi allt frá 1971. Hún hafði farið upp í um 50% 1977 og stökk aftur upp í nær 100% sumarið 1983. Erfitt eða ókleift var að gera lánsfjárskuldbindingar til langs tíma í svo óstöðugum gjaldmiðli. Krónan virtist ónýt til að gegna því hlutverki sínu að vera mælieining á verðmæti. Ég ræddi málið stundum við dr. Sigurð B. Stefánsson hagfræðing, og hann velti því fyrir sér með mér, hvort Ísland væri of lítið gjaldmiðilssvæði. Flestir aðrir tóku hugmyndinni fjarri.
Ég spurði Milton Friedman um þetta í heimsókn hans til Íslands haustið 1984. Hann svaraði: Frá fræðilegu sjónarmiði séð er Ísland ekki of lítið gjaldmiðilssvæði. En frá hagnýtu sjónarmiði séð er vissulega erfitt fyrir fámennar þjóðir með eigin gjaldmiðil að fylgja stöðugri peningastefnu. Það er of margt, sem truflar þær; þrýstingurinn kann að vera valdsmönnum um megn. Friedman sagði, að einn skásti kostur slíkrar smáþjóðar væri að tengja gjaldmiðil sinn við gjaldmiðil helstu viðskiptaþjóðar sinnar að því tilskildu, að smáþjóðin afsalaði sér öllu valdi í peningamálum. Hún gæti ekki látið sér nægja að lýsa yfir því, að gengið væri fasttengt við annan gjaldmiðil, heldur yrði hún að leggja niður eiginlegan seðlabanka. Hann nefndi sérstaklega Panama, sem notar Bandaríkjadal, og Lúxemborg, sem þá notaði í raun belgískan franka, þótt í umferð í landinu væri sérstakur Lúxemborgarfranki, sem var jafngildur hinum belgíska og gjaldgengur í Lúxemborg, en síður í Belgíu.
Segja má, að Friedman hafi bent okkur á að snúa aftur til sama fyrirkomulags og fyrir 1922. Allt frá því að íslenskir peningar voru fyrst settir í umferð 1885, hafði íslensk króna verið jafngild danskri krónu. Hér var þá ekki eiginlegur seðlabanki, heldur hafði einn viðskiptabanki og síðar tveir seðlaútgáfurétt eftir föstum reglum. Ísland og Danmörk voru eitt gjaldmiðilssvæði (og raunar Norðurlönd öll nema Finnland um skeið). Allir gátu farið frjálsir ferða sinna úr landi, og gengi myntarinnar í ýmsum ríkjum var skráð í landafræðinni, en ekki dagblöðunum, sagði Sigurður Nordal um árin fyrir 1914. Fyrstu skiptin, sem eg kom til Edinborgar, var hægt að skipta hinum óinnleysanlegu seðlum Landsbankans umsvifa- og affallalaust fyrir glóandi gullpeninga. Samband íslenskrar og danskrar krónu rofnaði í fyrri heimsstyrjöld, þegar verðbólga varð miklu meiri á Íslandi en í Danmörku. Þetta var þó ekki viðurkennt fyrr en sumarið 1922, þegar í fyrsta skipti var skráð sérstakt gengi danskrar krónu.
Íslendingum tókst hörmulega að fara með sjálfstætt seðlaprentunarvald: Næstu sjötíu ár, til 1992, féll íslensk króna niður í einn þúsundasta af danskri krónu (því að íslensk króna var einn tíundi af danskri krónu og hafði verið hundraðfölduð 1981). Ég áttaði mig hins vegar ekki á því, þegar við Friedman áttum tal saman, og raunar ekki fyrr en nýlega, að Íslendingar höfðu þegar tekið upp annan gjaldmiðil. Með Ólafslögum 1979, sem kennd voru við Ólaf Jóhannesson forsætisráðherra, því að hann hafði lagt frumvarpið um þau fram í eigin nafni, var mælt fyrir um verðtryggingu lánsfjárskuldbindinga, sem var gamalt baráttumál annars Ólafs, Björnssonar prófessors. Vegna mikillar verðbólgu næstu ára jókst verðtrygging stórlega. Þetta gerðist af illri nauðsyn: Innlán í banka höfðu skroppið saman og voru að verða að engu. En um leið og bankar urðu að bjóða verðtryggingu innlána til langs tíma, þurftu þeir að verðtryggja útlánin líka. Til var orðinn á Íslandi nýr gjaldmiðill, verðtryggð króna, sem notaður var við hlið hins gamla. Fólk notaði venjulega krónu til að greiða í stöðumæla og kaupa í matinn, en verðtryggða krónu til að veita eða taka lán til langs tíma. Hinn nýi gjaldmiðill var eðli málsins samkvæmt stöðugur og gegndi vel því hlutverki að vera reikni- eða mælieining á verðmæti.
Það hafði víðtæk áhrif, þegar krónunni var kastað í langtímasamningum og tekinn þar upp annar gjaldmiðill, verðtryggð króna. Fyrirtæki, sem lifað höfðu af ódýru lánsfé, hættu rekstri, og var Samband íslenskra samvinnufélaga frægast þeirra. Verðbólgan hafði áður verið sáttasemjari í kjarasamningum: Þegar verkalýðsfélög höfðu knúið fram meiri kauphækkanir en fyrirtækin gátu staðið undir, hafði vandinn verið leystur með því að fella peninga í verði, sem jafngilti því að auka verðbólgu. Nú varð þetta erfitt, svo að aðilar vinnumarkaðarins sáu sitt óvænna og sömdu 1990 um þjóðarsátt, hóflegar kauphækkanir að því gefnu, að ríkið fylgdi stöðugri stefnu í peninga- og ríkisfjármálum. Það gekk að vísu ekki eftir fyrr en ári síðar, þegar Davíð Oddsson myndaði sína fyrstu ríkisstjórn. En eftir það hjaðnaði verðbólga og er svipuð og í grannlöndunum, eins og sjá má á 1. mynd.
Þegar að er gáð, reyndust þeir Friedrich A. von Hayek og James M. Buchanan meiri spámenn en Friedman í peningamálum okkar Íslendinga. Buchanan sagði í fyrirlestri í Háskóla Íslands haustið 1982:
Tillaga Hayeks um samkeppni gjaldmiðla kann til dæmis að eiga við í eins litlu og opnu hagkerfi og hinu íslenska. Þá á ég að vísu ekki við peninga, sem framleiddir væru af bönkum eða öðrum einkafyrirtækjum, heldur venjulega gjaldmiðla, svo sem Bandaríkjadali, bresk pund, svissneska franka, þýsk mörk og íslenskar krónur. Þið gætuð látið þessa gjaldmiðla keppa hvern við annan. Með öðrum orðum gætuð þið leyft fólki að velja, í hvaða gjaldmiðli það gerði fjárhagsskuldbindingar sínar. Þetta hlyti að veita valdsmönnum nokkurt aðhald, því að annaðhvort hætti íslenska krónan að falla í verði eða menn tækju upp aðra gjaldmiðla í viðskiptum, til dæmis þannig að svissneskur franki útrýmdi íslenskri krónu af peningamarkaðnum.
Þetta hafði í raun gerst innan lands fyrir rás viðburða og af illri nauðsyn: Verðtryggð króna hafði útrýmt venjulegri krónu í öllum langtímasamningum. Þetta var svipað eins og ef leyft hefði verið að gera langtímasamninga í Bandaríkjadal og flestir gert það.
Eftir að íslenska hagkerfið opnaðist upp úr 1991, var allt um skeið með kyrrum kjörum hér í peningamálum, þótt evra leysti í ársbyrjun 1999 gjaldmiðla Þýskalands, Frakklands og nokkurra annarra aðildarríkja Evrópusambandsins af hólmi. En í árslok 2002 voru tveir íslenskir viðskiptabankar seldir einkaaðilum. Þeir fetuðu óðar í fótspor fyrirtækja eins og Kaupþings, Bakkavarar og Baugs og hófu útrás. Þeir höfðu fullar hendur fjár, enda hafði nýtt fjármagn skapast eða gamalt, óvirkt fjármagn orðið virkt við úthlutun varanlegra og seljanlegra aflakvóta í sjávarútvegi, stórfellda sölu ríkisfyrirtækja og stofnun kauphallar, auk þess sem lífeyrissparnaður Íslendinga er einn hinn mesti í heimi. Nú kemur röskur helmingur af tekjum bankanna og hærra hlutfall hjá mörgum öðrum fyrirtækjum frá útlöndum. Sumir þessara aðila kvarta undan því, að íslensk króna sé óstöðug og því ekki eins heppileg reikningseining og evra. En evra verður líklega ekki eins stöðug til langs tíma litið og Bandaríkjadalur. Önnur ástæðan er, að sveigjanleiki milli landshluta er minni á evrusvæðinu. Bandaríkjamenn eiga auðveldara með að flýja samdrátt með því að færa sig frá Arkansas til Kaliforníu en Evrópumenn með því að flytjast frá Portúgal til Írlands. Hin ástæðan er, að sveigjanleiki á vinnumarkaði er minni á evrusvæðinu. Þetta hlýtur allt síðar meir að valda meiri þrýstingi á seðlabanka Evrópu en Bandaríkjanna.
Það er umhugsunarefni, að erlend matsfyrirtæki gefa íslenskum bönkum hærri lánshæfiseinkunnir en ella vegna þess, að þeir nota íslenska krónu, eru mikilvægir íslensku atvinnulífi og njóta því að dómi matsfyrirtækjanna óbeinnar ábyrgðar ríkis og seðlabanka. En þegar hugað er að framtíðarskipulagi peningamála, vakna margar spurningar. Hvers vegna sjá lönd eins og Kanada og Nýja Sjáland sér ekki hag í að taka upp gjaldmiðla aðalviðskiptalanda sinna, Bandaríkjanna og Ástralíu? Hvers vegna dettur Svisslendingum ekki í hug að leggja niður franka sinn? Ættu Íslendingar ekki frekar að velja pund en evru, kasti þeir krónunni? Hvaða gjaldmiðill er líklegastur til að vera stöðugur til langs tíma litið? Spekingar kunna færri svör við þessum spurningum en sjálfur veruleikinn. Eðlilegast er að leyfa hinum frjálsa markaði að leysa úr þeim, eins og Buchanan lagði til. Hugmynd hans hefur þegar verið framkvæmd á Íslandi að nokkru leyti, því að fyrirtæki, sem eiga meira en helming viðskipta sinna í einhverjum einum erlendum gjaldmiðli, mega gera upp í honum. Menn geta líka lagt fé inn á gjaldeyrisreikninga hér og erlendis, auk þess sem þeir mega taka lán í öðrum gjaldmiðlum.
Íslendingar þurfa ekki að ganga í Evrópusambandið vegna peningamála, enda er heppilegast, að þeir standi utan þess, ef þeir hyggjast laða fyrirtæki til landsins með lágum sköttum. En ef svo fer, að einn annar gjaldmiðill verði krónunni yfirsterkari síðar meir, sem er auðvitað óvíst, þá má tengja krónuna við hann, eins og Friedman lagði til. Þetta yrði sama peningaskipulag að breyttu breytanda og í Hong Kong, þar sem Hong Kong dalur er í beinu og föstu hlutfalli við Bandaríkjadal, svo að seðlaútgáfa er háð því, hversu stóran forða af Bandaríkjadal seðlabankinn á. Þetta myndi fela í sér, að ein gengistryggð króna tæki við af þeim tveimur gjaldmiðlum, sem við Íslendingar notum nú, venjulegri krónu og verðtryggðri. En þegar ekki er nauðsynlegt að breyta, er nauðsynlegt að breyta ekki. Á meðan markaðurinn hefur ekki hafnað krónunni, er ástæðulaust að setja á langar orðræður um að kasta henni. Evra er nýr gjaldmiðill og fullnægjandi reynsla ekki fengin af henni. Jafnvel þótt markaðurinn hafni einni gerð krónu, er líklegast, að þá taki við önnur gerð krónu. Jón Sigurðsson á ef til vill eftir að endast lengur á íslenskum seðlum en nafnar hans í seðlabankanum.
Vísbending febrúar 2007.