31.3.2007 | 21:49
Er vaxtaokur á Íslandi?
Viðskiptabankarnir stórgræða. Þótt Adam Smith hafi kennt okkur, að eins gróði þurfi ekki að vera annars tap við frjáls viðskipti og verkaskiptingu, vakna grunsemdir í brjóstum sumra manna um, að einhverjir tapi, þegar aðrir græða. Tveir hagfræðingar hafa haldið því fram, að bankarnir græði, af því að þeir stundi vaxtaokur. Vaxtamunur á inn- og útlánum sé óvíða meiri en á Íslandi. Annar þessara manna er Guðmundur Ólafsson, sem kennir í Viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands og Háskólanum á Bifröst. Hann kom fram í Silfri Egils 21. janúar 2007 og talaði um okursamfélagið og fylgdi máli sínu eftir í fréttum Stöðvar tvö 16. febrúar 2007, eftir að Jóhanna Sigurðardóttir hafði tekið vaxtaokrið upp á Alþingi. Hinn maðurinn er Þorvaldur Gylfason, prófessor í Viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands. Hann birtir töflu um vaxtamun á heimasíðu sinni á vef Háskóla Íslands og skrifar reglulega um bankana í vikulegum pistlum í Fréttablaðinu, en margoft hefur einnig verið vitnað til hans um þetta á opinberum vettvangi.
Ég hringdi í Guðmund Ólafsson og spurði, hvernig hann reiknaði út, að vaxtamunur væri óvenju mikill á Íslandi. Hann svaraði, að hann hefði reiknað út meðaltal allra auglýstra innlánsvaxta og dregið frá meðaltali allra auglýstra útlánsvaxta. Aðspurður kvaðst hann ekki hafa reynt að vega ólíka vexti á ólíkum lánum og ekki heldur reiknað út vaxtamun í öðrum löndum eftir þessari aðferð. Guðmundur vísaði mér líka á heimasíðu sína á Vef Háskóla Íslands, en þar eru tölur hans og línurit um vaxtamun. Línurit Guðmundar lítur svo út:
Samkvæmt því hefur vaxtamunur verið mikill árin 2000-2002, yfir 10%, en síðan dregið úr honum, svo að 2004 er hann um 8%. En ekki þarf að hafa mörg orð, að útreikningar Guðmundar eru fráleitir. Hann hefur hvorki fyrir því að reikna vaxtamun í öðrum löndum út eftir þessari aðferð sinni né reyna að meta, hvað hver lánaflokkur vegur. Til dæmis eru innlánsvextir vissulega lágir á almennum sparisjóðsbókum. En aðeins um 1,% innlána eru geymd á slíkum bókum.
Ég skrifaði Þorvaldi Gylfasyni og spurði, hvernig hann hefði reiknað út vaxtamun þann, sem sýndur væri í línuriti á heimasíðu hans. Þar er Seðlabankans getið sem heimildar, en engar skýringar gefnar að öðru leyti á tölum hans. Ég fékk ekkert svar. Ég skrifaði Þorvaldi þá aftur og sagðist sjá af tölum úr Seðlabankanum, að hann hefði líklega dregið innlánsvexti á almennum sparisjóðsbókum frá útlánsvöxtum á skammtímaskuldum, 60 daga víxlum. Ef hann mótmælti ekki, þá myndi ég hafa það fyrir satt. Hann hefur ekki mótmælt, enda er línuritið á heimasíðu hans eins í laginu og það, sem draga má upp eftir þessum tölum. Það lítur út á þessa leið:
Samkvæmt því er vaxtamunur árið 2005 rösk 15% og hefur aukist talsvert, frá því að bankarnir komust allir í hendur einkaaðila ári 2002. Á heimasíðu Þorvalds er löng hugleiðing undir línuritinu um það, að Landsbankinn og Búnaðarbankinn hafi verið seldir einkavinum á undirverði, svo að hæfustu mennirnir hafi ekki valist til að stjórna þeim. Í því liggi rót vaxtaokursins. En útreikningar Þorvalds á vaxtamun eru enn fráleitari en Guðmundar. Hann dregur lægstu innlánsvexti, sem hann finnur, frá hæstu útlánsvöxtum, sem hann finnur, og kynnir það sem vaxtamun. Hann hefði átt að kynna það sem mesta mögulega vaxtamun. Þeir innláns- og útlánsvextir, sem hann notar, eru aðeins á broti lána. Til dæmis eru 85% af skuldum heimilanna húsnæðislán á innan við 5% vöxtum (verðtryggðum).
Það er furðulegt, að þessir tveir hagfræðingar skuli ekki nota hina venjulegu aðferð til að reikna út vaxtamun banka, þótt þeir hljóti að kunna hana. Hún er að draga heildarvaxtagjöld bankanna frá heildarvaxtatekjum þeirra og finna síðan hlutfallið milli þeirrar tölu og meðaltals efnahagsreikninga bankanna í upphafi og lok árs. Á þann hátt eyðast skekkjur, sem stafa af því, að ólík lán eru á ólíkum kjörum, til dæmis húsnæðislán á miklu lægri vöxtum en víxillán. Seðlabankinn reiknar út vaxtamun á þennan hátt, eins og sjá má á árlegum skýrslum hans um fjármálastöðugleika á Íslandi. Vaxtamunur er samkvæmt þessari aðferð 1,9% árið 2005 og hið sama árið 2006, en hvorki 8% eins og Guðmundur Ólafsson reiknaði út né 15% eins og Þorvaldur Gylfason reiknaði út. Línurit um vaxtamuninn lítur út á þessa leið:
Hér sést, að vaxtamunur var miklu meiri fyrr á árum, til dæmis 4,4% árið 1995. Hann tók að minnka við sölu bankanna árið 2002. Nú má segja, að hin viðurkennda og alþjóðlega aðferð til að reikna út vaxtamun banka valdi einhverju vanmati á vaxtamun um þessar mundir, þar sem bankarnir hafa eignast mjög miklar eignir erlendis. Efnahagsreikningar þeirra hafi því stækkað mjög. Á móti má að vísu segja, að óvíst er, að hinar nýju eignir þeirra erlendis séu færðar á markaðsverði í efnahagsreikningum. En þá má líta á vaxtamun sparisjóðanna, því að þar truflar engin erlend eignamyndun mælinguna. Hann er líka sýndur á þessu línuriti. Vaxtamunur sparisjóða var 5,5% 1995 og hefur lækkað niður í 3% 2005.
Niðurstaðan er því sú, að vaxtamunur inn- og útlána í hefðbundnum skilningi þess orðs er á Íslandi um 2-3% og hefur lækkað talsvert, frá því að Landsbankinn og Búnaðarbankinn komust í hendur einkaaðila. Tölur þeirra Guðmundar og Þorvalds um vaxtamun inn- og útlána eru fráleitar og hljóta að hafa verið settar fram í áróðursskyni, ekki til upplýsingar. Auðvitað stenst 15% vaxtamunur ekki. Hvað veldur því, að sumir hafa tekið mark á marklausum tölum? Önnur ástæðan hefur þegar verið nefnd: Þar sem bankarnir stórgræða, trúa sumir því, að þeir hljóti að okra á innlendum viðskiptavinum sínum. Sannleikurinn er hins vegar sá, eins og allir sjá, sem rýna í reikninga bankanna, að þeir græða um þessar mundir aðallega á vel heppnuðum umsvifum erlendis. Sá banki, sem græðir einna mest, Straumur-Burðarás, stundar raunar engin venjuleg inn- eða útlánsviðskipti með einstaklingum, svo að ekki stundar hann vaxtaokur á heimilunum. Hin ástæðan til þess, að einhverjir hafa tekið mark á hinum fráleitu tölum þeirra Guðmundar og Þorvalds, er, að vaxtamunur milli Íslands og annarra landa er mikill, af því að stýrivextir Seðlabankans eru háir. Vextir á útlánum jafnt og innlánum eru því háir, þótt vaxtamunur á inn- og útlánum sé ekki mikill og hafi lækkað hin síðari ár.
Að lokum má velta fyrir sér, hvers vegna vaxtamunur inn- og útlána var miklu meiri áður fyrr. Ein skýringin er auðvitað, að samkeppni bankanna um viðskiptavini var ekki eins hörð áður fyrr. Þeir eru nú betur reknir. Önnur skýring er, að útlánatöp voru þá miklu meiri, því að þá var ekki alltaf lánað út eftir greiðslugetu og hagnaðarvon, heldur oft eftir stjórnmálaítökum lánþeganna. Bankarnir voru undir áhrifum stjórnmálamanna, sem vildu halda fyrirtækjum stuðningsmanna sinna gangandi, hvort sem rekstur þeirra var arðsamur eða ekki, og er skemmst að minnast fjáraustursins í loðdýrarækt og fiskeldi og fyrirgreiðslu við samvinnufélög fyrir 1991. Venjulegt fólk bar útlánatapið, því að það þurfti að sætta sig við mikinn vaxtamun inn- og útlána. Sala bankanna var kaupendunum vissulega til stórkostlegra hagsbóta, eins og sjá má af nýlegum afkomutölum, en líka öllum almenningi. Íslenska útrásin hefði aldrei orðið heldur, ef bankarnir hefðu áfram verið í höndum ríkisins.
Vísbending, janúar 2007.