Forvitnileg stúdentaráðstefnu í dag, laugardag

Samtökin European Students for Liberty halda forvitnilega ráðstefnu í dag, laugardaginn 15. nóvember, sem meira en 100 manns hafa skráð sig á. Hún er í Háskólatorgi, stofu HT-105, og hefst kl. 11.30. Ætlast er til, að menn skrái sig fyrirfram hér, en ég get ekki ímyndað mér, að neinum sé meinaður aðgangur.

Dr. Birgir Þór Runólfsson hagfræðidósent lýsir íslenska þjóðveldinu, en hann skrifaði doktorsritgerð um stofnun þess, hnignun og fall, þar sem hann beitti hagfræðilegri greiningu á mjög frumlegan hátt. Þjóðveldið er sérlega forvitnilegt vegna þess, að þar stóð skipulag án ríkisvalds. Stjórnleysingjar hafa því iðulega litið til þess. En hvernig leystu Íslendingar að fornu ýmis þau verkefni, sem ríkið leysir nú á dögum, svo sem réttarvörslu? Var þjóðveldið draumríki stjórnleysingja? Hinn kunni bandaríski hagfræðingur og frjálshyggju-stjórnleysingi (anarkókapítalisti) David Friedman hefur skrifað um íslenska þjóðveldið í þeim anda.

Pallborðsumræður verða um lögleiðingu fíkniefna, þar sem tveir fulltrúar Pírata koma fram, Aðalheiður Ámundadóttir lögfræðingur og Helgi Hrafn Gunnarsson þingmaður, og stúdentaleiðtoginn Aleksandar Kokotovic frá Serbíu. Ég hef að vísu sjálfur aldrei sagt, að umræðan snúist um lögleiðingu fíkniefna, heldur um það, með hvaða rökum ríkið leyfi og jafnvel taki sér einkarétt til að selja sum fíkniefni, til dæmis níkótín og alkóhól, en banni önnur með lögum og eyði síðan fé og fyrirhöfn í að koma í veg fyrir sölu þeirra og neyslu, svo að lögregluyfirvöld fái ekki sinnt öðrum brýnum verkefnum eins og að verja líf okkar, limi og einkalíf fyrir ofbeldi og áreitni, jafnframt því sem til verði glæpafélög, sem fullnægi þörfinni fyrir þessi bönnuðu fíkniefni, við hlið ríkisins, sem fullnægi þörfinni fyrir hin leyfðu. Ef til vill eru til rök fyrir þessari mismunun, en þau hafa aldrei verið sett fram, svo að ég hafi sannfærst.

Sjálfur flyt ég erindi síðdegis (kl. 16) um boðskap franska hagfræðingsins Thomasar Pikettys í bók hans, Fjármagni á 21. öld, en þar krefst hann ofurskatta á stóreignamenn og hálaunafólk í því skyni að jafna tekjudreifinguna. Telur hann fjármagn hlaðast upp í höndum fárra, hins margfræga 1% tekjuhæsta hóps. Virðist mér sem Piketty hafi tekið við af John Rawls sem helsti spámaður og andlegur leiðtogi vinstri manna, en sá munur er á, að Rawls hafði áhyggjur af fátækt, en Piketty af auðlegð. Og ég hélt hér áður fyrr í einfeldni minni, að fátækt væri böl, en auðlegð blessun. Á þeirri tíð voru áhyggjur af auðlegð, sem ekki væri illa fengin, kölluð öfund, en hún var ein af dauðasyndunum sjö (ásamt heift, græðgi, ágirnd, hirðuleysi, drambi og losta).

Tveir útlendingar aðrir flytja erindi, prófessor James Lark frá Bandaríkjunum og Lukas Schweiger frá Austurríki, sem er formaður European Students for Liberty, en svo skemmtilega vill til, að hann er búsettur á Íslandi um þessar mundir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband