10.8.2014 | 10:32
Furðuskrif Stefáns Ólafssonar
Stefán Ólafsson prófessor skrifaði fyrir nokkru pistil um nýja skýrslu frá Sameinuðu þjóðunum um loftslagsmál og víkur þar oftar en einu sinni að mér.
Þessi pistill Stefáns er furðulegur. Ég hef ekki neitað því, sem augljóst er, að hlýnað hefur (þótt sú hlýnun virðist ekki halda áfram af sama hraða frá 1998 og fyrir þann tíma). Ég tel mig ekki heldur hafa neinar forsendur til þess að neita því, að menn geti átt einhvern þátt í þeirri hlýnun. Mér hefur hins vegar fundist ýmislegt varhugavert í þeim stjórnmálaályktunum, sem sumir vilja draga af þessu. Hér er tiltölulega nýleg grein eftir mig um þetta, sem skrifuð var af sérstöku tilefni. Ég vek sérstaklega athygli á upphafsorðum greinarinnar: Enginn getur neitað því, að veður hefur hlýnað síðustu áratugi. Og: Enginn getur heldur neitað því, að einhver gróðurhúsaáhrif verki á veðrið. Hvað gengur Stefáni Ólafssyni til að reyna að falsa skoðanir mínar? Til að hann hafi eitthvað til ráðast á?
Þessi rökvilla eða brella var í rökfræðinni, sem ég lærði forðum, kölluð Straw man fallacy, og um hana er fróðleg grein á Wikipedia. Ég skrifaði athugasemd við þessi skrif Stefáns á Eyjunni.is og skoraði á hann um að benda mér á skrif eftir mig, þar sem ég afneita því, að hlýnað hafi í veðri og að eitthvað kunni að vera hæft í því, að það sé af mannavöldum. Hann hefur ekki getað bent á nein slík skrif mín.
Um daginn sakaði kona að nafni Sigríður Dögg Auðunsdóttir, sem ég hef aldrei hitt og aðeins heyrt smávegis um og það heldur misjafnt, mig um að hafa dreift sögum um ástamál sín og Sigurðar G. Guðjónssonar hæstaréttarlögmanns. Þessi furðuskrif Stefáns eru í sama flokki, hugarórar, uppspuni og ímyndanir. Ég segi enn eins og Bergljót Hákonardóttir forðum við Kala, skósvein Einars Þambarskelfis: Það er illa gert að fást upp á ókunna menn með hrópyrðum og háðsemi og munu yður tröll toga tungu úr höfði.Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook