6.8.2014 | 20:03
Ættjarðarást
Þegar heyrist í þeim, sem töldu ekkert athugavert við hryðjuverkalögin, sem Bretar settu á okkur, og vildu síðar óðfúsir semja við Breta um að greiða hinar svokölluðu Icesave-kröfur, sem við höfðum ekki stofnað til, hlýtur ýmsum að detta í hug skilgreining bresks stjórnmálamanns, Benjamíns Disraelis forsætisráðherra, í ræðu í ráðhúsi Lundúna 1877 á þeim, sem hann kallaði heimsborgaralega gagnrýnendur, cosmopolitan critics: Menn, sem eru vinveittir öllum löndum öðrum en sínu eigin.
Með sumum fastapennum Fréttablaðsins og Eyjunnar er orðin lenska að hallmæla eigin þjóðerni og hæðast að ættjarðarást. Vissulega misnotuðu valdsmenn úti í Evópu orðið ættjarðarást forðum til að siga milljónum saklausra ungmenna út á vígvellina. Ættjarðarást er síðasta skjól skálksins, sagði dr. Samuel Johnson. Annar Breti, rithöfundurinn Richard Aldington, gerði hins vegar nauðsynlegan greinarmun: Ættjarðarástin er sterk vitund um sameiginlega ábyrgð. Þjóðernisstefna er hjákátlegur hani að gala á eigin haug.
Hér á Íslandi var ættjarðarást ekki misnotuð til að ginna fólk í stríð, heldur var hún notuð til að blása því í brjóst stolti af því að vera Íslendingar, sérstaklega í sjálfstæðisbaráttunni á nítjándu og tuttugustu öld. Fámenn þjóð þurfti á því að halda. En stoltið má ekki vera tilefnislaust. Ísland getur ekki lifað á fornri frægð einni saman, heldur þarf það að standa jafnfætis öðrum löndum um frelsi og efnalegar framfarir. Þetta vissi Jón Sigurðsson vel. Ef maður á að elska land sitt, þá verður það líka að vera elskulegt, sagði breski stjórnspekingurinn Edmund Burke. Landið á að vera heimahöfn frekar en útkjálki, bjóða upp á næg tækifæri til að bæta kjörin. Ella flyst dugnaðarfólkið héðan til lífvænlegri landa og eftir sitja nöldurskjóðurnar og telja sultardropana úr nefinu. Og þá verður íslensk ættjarðarást markleysa.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 8. febrúar 2014.)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook