30.6.2014 | 14:38
Alþingi ómerkir eina niðurstöðu rannsóknarnefndar sinnar
Margt var fróðlegt og gagnlegt í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis á bankahruninu frá 2010. Meginniðurstaða nefndarinnar er, að Jón Ásgeir Jóhannesson í Baugi hafi verið helsti innlendi áhrifavaldurinn um hrunið. Í 7. bindi, 21. kafla, bls. 189, segir: Af öllum þeim fyrirtækjahópum sem höfðu veruleg útlán í íslenska bankakerfinu stendur upp úr stór hópur fyrirtækja sem tengdist Baugi Group. Í öllum þremur bönkunum sem og í Straumi-Burðarási skapaði þessi hópur of stóra áhættu.
Síðan segir: Rannsóknarnefndin telur að hér hafi verið búin að myndast veruleg kerfisáhætta, þar sem fall eins fyrirtækis gat haft áhrif ekki aðeins á einn kerfislega mikilvægan banka heldur alla þrjá kerfislega mikilvægu bankana. Fjármálastöðugleika var því verulega ógnað af til að mynda Baugi sem var, eins og fram kemur í skýrslunni, kominn í veruleg greiðsluvandræði þegar líða tók á árið 2008. Seðlabanka Íslands er falið að tryggja fjármálastöðugleika í landinu, en eins og fram kemur í skýrslunni hafði Seðlabankinn heldur ekki kallað eftir nauðsynlegum gögnum til að meta þessa kerfisáhættu. Rannsóknarnefndin hafnar því hins vegar að honum hafi ekki verið heimilt að fá gögn, eins og fram kemur í kafla 19.7. Fjármálaeftirlitið hafði hins vegar gögnin til að sjá þessa kerfisáhættu.
Þótt aðfinnslur Rannsóknarnefndarinnar um ætlaða vanrækslu seðlabankastjóranna þriggja séu ekki stórvægilegar, breytir það því ekki, að nefndin sakaði þá um vanrækslu. Þeir hefðu að hennar sögn átt að kalla eftir gögnum um Baug og fyrirtæki nátengd því. Í athugasemdum sínum, sem ekki fengust birtar í hinum prentaða hluta skýrslunnar, vísuðu seðlabankastjórarnir þrír þessum aðfinnslum alfarið á bug og sögðust ekki hafa haft lagaheimild til að útvega sér slík gögn ólíkt Fjármálaeftirlitinu.
Nú hefur Alþingi sjálft skorið úr þessum ágreiningi. Það samþykkti sumarið 2013 frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 36/2001 um Seðlabanka Íslands. Í athugasemdum er efni þess stuttlega lýst: Í frumvarpinu er lagt til að skerpt verði á heimildum Seðlabanka Íslands til að setja lánastofnunum reglur um laust fé og lágmark stöðugrar fjármögnunar hvort sem er í íslenskum krónum eða erlendum gjaldmiðlum og skilgreina betur hvaða eignir og skuldir falli undir gjaldeyrisjöfnuð, sundurliðun þeirra og vægi. Til að reglur Seðlabankans nái markmiði sínu og bankinn geti rækt það hlutverk sitt að stuðla að fjármálastöðugleika og þar með virku og öruggu fjármálakerfi er jafnframt lagt til að skerpt verði á heimildum Seðlabankans til þess að afla upplýsinga og að tilgreint ákvæði laganna um beitingu dagsekta verði sett fram með skýrari hætti. Þá er lagt til að skýrt verði tekið fram í lögum um Seðlabanka Íslands að bankinn skuli stuðla að fjármálastöðugleika.
Frumvarp þetta var flutt að frumkvæði Seðlabanka Íslands. Sigríður Benediktsdóttir, sem hefur umsjón með fjármálastöðugleika í bankanum, taldi að athuguðu máli nauðsynlegt að veita honum auknar heimildir til þess að afla upplýsinga. En hvers vegna þurfti að samþykkja sérstakt frumvarp um það? Vegna þess að Seðlabankinn hafði slíkar heimildir ekki áður. Alþingi hefur nú í raun viðurkennt, að seðlabankastjórarnir þrír höfðu rétt fyrir sér í athugasemdum við aðfinnslur Rannsóknarnefndarinnar. Hefði Rannsóknarnefndin haft rétt fyrir sér, þá hefði ekki þurft að samþykkja þetta frumvarp.
(Grein í Morgunblaðinu 3. ágúst 2013.)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook