7.6.2013 | 22:59
Að liðnum kosningum
Halldór Laxness var ómyrkur í máli, þegar hann talaði um kosningar. Hann skrifaði í Alþýðubókinni 1929: Kosníngar eru borgarastríð þar sem nef eru talin í stað þess að höggva hálsa. Sá sem mestu lofar og lýgur nær flestum nefjum. Á hinum auvirðilega skrípaleik borgaralegrar skussapólitíkur verður auðvitað einginn endi fyren vísindalegur stjórnmálaflokkur alþýðunnar hefur tekið alræði.
Sigurður Nordal var ekki heldur hrifinn af lýðræði. Hann sagði í Íslenskri menningu 1942: Háski sá, sem vofir yfir lýðræði nútímans og hefur víða gert það svo valt, er framar öllu fólginn í fláttskapnum, þegar almenningi er talin trú um, að hann sé kúgaður samkvæmt umboði frá honum sjálfum, eða hann er fyrst féflettur og síðan látinn þiggja sína eigin eign í mútur og náðargjafir.
Nordal vildi ekki kalla til vísindalegan stjórnmálaflokk alþýðunnar eins og Laxness, heldur hinn upplýsta einvald. Nordal sagði í greininni Samlagningu 1927: Því mun varla verða mótmælt, að sú ríkisheild sé best farin, er einn úrvalsmaður stjórnar á eigin ábyrgð og þeir menn, sem hann kveður til. Nordal bætti því hins vegar við, að jafnan hefði reynst ærnum vandkvæðum bundið að finna réttan einvald. Og allir vita, hvernig hinum vísindalegu stjórnmálaflokkum alþýðunnar, sem Laxness sá fyrir sér, hefur gengið að stjórna, þar sem þeir hafa fengið til þess tækifæri.
Sönnu næst mun það því vera, sem hinn gamalreyndi stjórnmálaskörungur Winston Churchill sagði í neðri málstofu breska þingsins 11. nóvember 1947: Enginn heldur því fram, að lýðræðisfyrirkomulagið sé fullkomið eða óskeikult. Raunar hefur verið sagt, að ekki sé til verri stjórnmálaaðferð en lýðræði, ef frá eru skildar allar aðrar aðferðir, sem reyndar hafa verið í tímans rás. Og sannleikskjarni er líka í fleygum ummælum Vilmundar Jónssonar landlæknis, sem ættuð munu vera frá öðrum breskum stjórnmálamanni, Clement Attlee: Kosturinn við lýðræði er, að losna má við valdhafana án þess að þurfa að skjóta þá.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 18. maí 2013.)Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook