Stjórnarmyndanir

Íslenskir stjórnmálaforingjar þurfa að berjast í þremur lotum, fyrst að komast á framboðslista, síðan að afla atkvæða í kosningum og loks að mynda stjórn. Hefur síðasta lotan oft reynst vandasamari en búist hafði verið við og fáir viljað kannast við afkvæmið, þegar það fæddist eftir erfiðar hríðir. Árni Pálsson prófessor sagði til dæmis um þjóðstjórnina, sem mynduð var vorið 1939: „Það vilja allir hafa hana, en enginn kannast við hana.“

Stundum festast stjórnmálamenn í kreddum um stjórnarmyndanir. Einn leiðtogi Framsóknarflokksins á liðinni öld, Eysteinn Jónsson, andmælti því í nóvemberlok 1946, þegar einhverjir flokksbræður hans máttu ekki til þess hugsa að mynda stjórn með sjálfstæðismönnum: „Við erum allir meira og minna haldnir af andúð og samúð með hinum ýmsu flokkkum. En við erum búnir sem miðflokkur, ef við göngum í bindindi um að ræða við aðra flokka.“

Fjölmiðlar vaka jafnan eins og gammar yfir stjórnarmyndunum, og sagði Ólafur Jóhannesson, þá formaður Framsóknarflokksins, eftir að hann hafði myndað stjórn sumarið 1971: „Ég efast um, að okkur hefði tekist þetta, ef sjónvarpið væri ekki í sumarleyfi.“ Þá var venjan sú, að Sjónvarpið sendi ekki út í júlímánuði.

Enginn maður myndaði oftar stjórn á tuttugustu öld en Ólafur Thors, formaður Sjálfstæðisflokksins 1934–1961, en hann var fimm sinnum forsætisráðherra. Þegar bandarískur sendimaður fann að því við hann, að hann hefði myndað stjórn með kommúnistum 1944, svaraði hann að bragði: „Þeir höfðu svo góð meðmæli.“ Sendimaður hváði. Ólafur sagði þá: „Frá Roosevelt og Churchill!“ Þá barðist Stalín við hlið þeirra Roosevelts og Churchills.

Stjórnarmyndun gekk erfiðlega í ársbyrjun 1950, og hugðist Sveinn Björnsson forseti skipa utanþingsstjórn. Ólafur Thors talaði þá til hans af miklum þunga: „Heldur þú, að það sé hlutverk þitt sem forseta að koma í veg fyrir, að hér á landi sé þingræði og þingræðisstjórn?“ Tókst Ólafi skömmu síðar að mynda samstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, þótt hann yrði að vísu sjálfur ekki forsætisráðherra.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 4. maí 2013.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband