1.6.2013 | 15:08
Baráttudagar
Komin er út stórfróðleg bók eftir Stefán Gunnar Sveinsson sagnfræðing, Búsáhaldabyltingin: sjálfsprottin eða skipulögð? Kemst höfundur að þeirri niðurstöðu, að búsáhaldabyltingin, eins og óeirðirnar veturinn 20082009 eru oft kallaðar, hafi verið hvort tveggja, sjálfsprottin og skipulögð. Margir hafi mótmælt bankahruninu af eigin hvötum og í fyllsta sakleysi, en ýmsir forystumenn Vinstri grænna aðstoðað óeirðaseggi, sem sátu um Alþingishúsið, meðal annars með því að veita þeim upplýsingar símleiðis innan úr húsinu.
Bókin leiðir hugann að tvennum hörðustu átökum tuttugustu aldar, Gúttóslagnum 9. nóvember 1932 og árásinni á Alþingishúsið 30. mars 1949. (Gúttó hefur nú verið rifið, en það stóð, þar sem nú eru bílastæði þingmanna, milli Alþingishússins og Vonarstrætis.) Líklega er hið sama að segja um þessi átök og búsáhaldabyltinguna: þau voru í senn sjálfsprottin og skipulögð. Munurinn er þó sá, að í Gúttóslagnum 1932 tapaði lögreglan fyrir kommúnistum, en henni tókst 1949 að hrinda árásinni á Alþingishúsið með aðstoð sjálfboðaliða, hvítliðanna svokölluðu. Eftir Gúttóslaginn lágu flestir lögregluþjónar bæjarins óvígir, eins og formaður kommúnistaflokksins, Brynjólfur Bjarnason, skrifaði sigri hlakkandi í skýrslu til Moskvu. Mörgum var minnis stætt, þegar Hermann Jónasson, þá lögreglustjóri í Reykjavík, kallaði til kommúnista inni í Gúttó, eftir að bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins voru sloppnir úr húsinu: Ykkar augnablik er liðið!
Ein frægustu ummælin í götubardaganum 1949 átti þingmaður Sósíalistaflokksins, Katrín Thoroddsen læknir, þegar hún sá hvítliða þramma úr þingflokksherbergi Framsóknarflokksins út á Austurvöll: Þetta er í fyrsta skipti, sem ég sé myndarlega menn koma út úr þessu herbergi.
Frá sögulegu sjónarmiði séð stendur búsáhaldabyltingin á milli Gúttóslagsins og árásarinnar á Alþingishúsið. Þar tapaði lögreglan ekki eins og 1932, en sigur hennar var miklu naumari en 1949, og mátti engu muna, enda hrökklaðist frá ríkisstjórn, og datt þá allt í dúnalogn. En líklega verða fleygustu ummæli búsáhaldabyltingarinnar talin frá Álfheiði Ingadóttur, þá alþingismanni, er hún æpti að lögreglumanni, sem varði ráðherra fyrir ofbeldisseggjum: Já, farðu bara, lífvarðatitturinn þinn, sem eltir ráðherraræfil alla daga!
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 30. mars 2013.)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook