10.5.2013 | 18:36
Nokkrar bækur, sem ég er að lesa
Síðustu vikur og mánuði hef ég þurft að fara í nokkrar langar ferðir, og þá er gott að taka með sér lesefni. Ég hef notað tækifærið til að lesa nokkrar bækur.
Ein er Why Capitalism? eftir Allan H. Meltzer, einn kunnasta hagfræðing Bandaríkjanna, fjörgamlan, en þó í fullu fjöri, nýkjörinn forseti Mont Pelerin-samtakanna, þar sem ég var í stjórn í sex ár (19982004). Þetta er stutt og skýr málsvörn kapítalismans, sem gerir fólki ekki aðeins kleift að brjótast úr fátækt í bjargálnir, heldur leyfir líka innan sinna vébanda fjölbreytni í leitinni að þroska. Ég keypti þessa bók í búð, þegar ég átti á dögunum leið um mína gömlu alma mater, Oxford.
Önnu er ljóðabók Stefáns Snævarrs, Bók bókanna, bækur ljóðanna, sem hann sendi mér með afmæliskveðju, en ég varð sextugur 19. febrúar síðast liðinn. Stefán hefur góða skáldgáfu. Bók hans er full af skemmtilegum hugdettum og líkingum, en ég hefði sjálfur fært þær í bundið mál, hefði ég verið höfundur. Ef til vill sýnir það aðeins, að ég sé of forn í skapi. En er ekki eitthvað til í því hjá Halldóri Laxness, að ljóð verði að vera þess eðlis, að þau megi syngja?
Þriðja bókin er stutt ævisaga Margrétar vinkonu minnar Thatchers eftir Clare Beckett. Bókin er fremur fjandsamleg Thatcher, sem getur verið kostur eins og galli. Horfa þarf á þann mikla stjórnmálamann frá mörgum hliðum.
Fjórða bókin er sjálfsævisaga Williams Rees-Moggs, sem var lengi ritstjóri Lundúnablaðsins Times og ötull stuðningsmaður Thatchers. Hún gefur góða mynd af fjölmenntuðum breskum yfirstéttarmanni og því lífi, sem hann lifði.
Fimmta bókin er á portúgölsku. A tradição anglo-americana da liberdade, engilsaxneska stjórnmálahefðin, eftir João Carlos Espada, portúgalskan prófessor, sem skrifaði doktorsritgerð um þetta efni í Oxford-háskóla. Ég kynntist Espada á ráðstefnum þeim tveimur, sem ég sótti nýlega í Petrópolis og Porto Alegre í Brasilíu. Hann ætlar að koma til Íslands og flytja fyrirlestur um þetta efni á málþingi, sem er í undirbúningi um Margréti Thatcher. Þetta er fróðleg bók, þótt ég verði að játa, að fátt í henni kom mér á óvart. Ég kynntist vel þessari stjórnmálahefð á námsárum mínum í Bretlandi. Höfundur var svo elskulegur að senda mér hana.Annar höfundur var líka svo elskulegur að senda mér bók eftir sig. Hann var prófessor Øystein Sørensen í Oslóarháskóla, sem kom hingað og flutti tvo fyrirlestra á vegum Rannsóknarseturs um nýsköpun og hagvöxt haustið 2012, en Sørensen er einn virtasti sagnfræðingur Noregs. Bókin heitir Fra Marx til Quisling og er um fimm kommúnista, sem gerðust nasistar. Ég kannaðist við nokkra þeirra úr rannsóknum mínum á sögu íslensku kommúnistahreyfingarinnar, en einn þessara manna, Haakon Meyer, sat þing Alþjóðasambands kommúnista í Moskvu 1922, og er til ljósmynd af honum með öðrum Norðurlandabúum á þinginu, þar á meðal Ólafi Friðrikssyni, og birtist sú mynd í bók minni, Íslenskum kommúnistum 19181998. Á þeirri mynd er líka Nils Flyg, sem var þá kommúnisti, en stofnaði upp úr 1930 fasistaflokk í Svíþjóð, sem gerðist hliðhollur þýskum nasistum.
Ég keypti síðan og las á Kindle bókina Bloodlands eftir prófessor Timothy Snyder, en þar er sögð hin hroðalega saga svæðisins á milli Þýskalands og Rússlands í kreppunni og seinni heimsstyrjöld, allt frá Úkraínu til Vestur-Póllands. Fyrst murkaði Stalín lífið úr milljónum bænda í Úkraínu. Síðan drap Hitler milljónir Gyðinga í Póllandi og marga aðra, fyrir það, sem þeir voru, ekki fyrir það, sem þeir gerðu. Saman útrýmdi þeir Stalín og Hitler öllum frammámönnum Póllands, sem þeir náðu til, því að þeir vildu ekki, að neinn annar réði þar í landi. Allt mótlæti Íslendinga bliknar í samanburði við það, sem sumar aðrar þjóðir hafa orðið að þola.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook