7.5.2013 | 19:46
30. apríl
Davíð Oddsson myndaði sína fyrstu ríkisstjórn 30. apríl 1991. Þá um kvöldið hittumst við Davíð ásamt tveimur öðrum vinum okkar og konum þeirra þriggja og skáluðum. Það lýsir þó Davíð vel, að við skáluðum að hans tillögu fyrst fyrir Bjarna Benediktssyni, forsætisráðherra 19631970, en þetta var afmælisdagur hans. Hafði Davíð hagað svo málum í kyrrþey, að stjórnin var mynduð á þessum merkisdegi.
Í hönd fóru þrettán og hálft gott ár, til 15. september 2004. Þá var markaðskapítalismi á Íslandi, sem merkti, að hagkerfið var opnað, meðal annars með aðild að Evrópska efnahagssvæðinu, fyrirtæki ríkisins seld, atvinnufrelsi aukið, skattar lækkaðir, réttaröryggi einstaklinga aukið með stjórnsýslulögum og upplýsingalögum, lífeyrissjóðir efldir, traustum lagastoðum rennt undir sjávarútveg og fjárlagahalla eytt, jafnframt því sem biðstofa forsætisráðherra tæmdist (vegna þess að fyrirtæki þurftu að standa á eigin fótum, en gátu ekki vaðið í opinbera sjóði), verðbólga hjaðnaði vegna aðhalds í peningamálum og skatttekjur ríkisins jukust vegna góðærisins og þrátt fyrir skattalækkanirnar.
Eftir markaðskapítalismann, sem fylgt var frá því í apríl 1991 og fram í september 2004, tók hins vegar við á Íslandi klíkukapítalismi (sem Ayn Rand kallar crony capitalism), valdatíð fámennrar auðklíku með lystisnekkju í Mónakó-höfn og einkaþotu á fleygiferð milli Lundúna og Reykjavíkur, skrauthýsi á Manhattan og óskoruð yfirráð yfir stórmörkuðum, bönkum og fjölmiðlum. Þessi auðklíka átti sér fylgismenn, sem séð höfðu ofsjónum yfir markaðskapítalismanum árin á undan. Þegar höfuðpaurinn var ákærður fyrir efnahagsbrot eftir rækilega rannsókn (sem átti rætur að rekja til kæru frá fyrrverandi samstarfsmanni hans), skrifaði einn þessara fylgismanna, Þorvaldur Gylfason prófessor, í blað auðklíkunnar: Nú virðist standa til að jafna um Jón Ásgeir og fimm aðra fyrir rétti. Hvað býr að baki? Stjórnmálamenn í Samfylkingunni stóðu líka í nánum tengslum við þessa auðklíku, en hirðskáld klíkunnar var Hallgrímur Helgason.
Auðklíkan tæmdi bankana, þótt hún tæki lánin á mörgum kennitölum, svo að áhættan virtist dreifðari en hún var í raun. Sennilega nefndi hún lystisnekkju sína og einkaþotu 101 vegna þess, að lánin voru á 100 kennitölum, þótt lántakandinn væri aðeins einn. Vegna framferðis auðklíkunnar voru bankarnir því alls vanbúnir, þegar fjármálakreppan skall á. (Þess má geta, að faðir höfuðpaursins gerði sér ásamt dóttur sinni sérstaka ferð til háskólarektors 9. desember 2009 til að krefjast þess, að ég yrði rekinn úr starfi mínu hér í háskólanum fyrir andóf við auðklíkuna.)
Eftir að klíkukapítalismanum íslenska lauk með braki og brestum í hinni alþjóðlegu fjármálakreppu, tók við dalakofasósíalismi þeirra Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar. Þá skyldi sama táfýlan vera af öllum, enginn ganga uppréttur og því síður skara fram úr. Skattar voru hækkaðir á þá, sem skapað geta verðmætin, erlendir fjárfestar fældir frá landinu með gjaldeyrishöftum, sem áttu samt aðeins að vera til bráðabirgða, virkjanir stöðvaðar, óvissa mynduð í sjávarútvegi, samið stórkostlega af sér í Icesave-deilunni, kropið fyrir hrokagikkjunum í Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, greiddir háir vexti af óþörfu láni hjá sjóðnum, efnt til ólöglegs kjörs í stjórnlagaráð, milljarði sóað að nauðsynjalausu í stjórnarskrármálið, öðrum milljarði í aðlögunarferli fyrir aðild að Evrópusambandinu, sem ekkert verður úr, tveir viðskiptabankanna seldir erlendum vogunarsjóðum í ógagnsæju ferli og svo framvegis. Fýlan lak ekki aðeins af forsætisráðherranum, heldur bjó heift í huga hennar og liðsmanna hennar. Grið voru rofin. Veist var að fyrrverandi stjórnmálaandstæðingum, einn fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins hrakinn úr Seðlabankanum og annar dreginn fyrir Landsdóm, og var hvort tveggja einsdæmi í íslenskri stjórnmálasögu.
Við eðlilegan markaðskapítalisma geta hvorki auðklíkur né valdaklíkur ráðið öllu um afkomu fólks og hlutskipti. Þar dreifast völdin. Þar eru þau í höndum neytenda og skattgreiðenda og fela því í sér frelsi til að velja og frelsi til að skapa. Þar er kjörorðið hvorki arðrán né ölmusa, heldur tækifæri tækifæri vinnandi fólks til að bæta sinn hag.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook