5.5.2013 | 14:04
Jóhanna skilur við flokk sinn rjúkandi rúst
Sögulegustu úrslitin í þingkosningunum vorið 2013 eru, að stjórnarflokkarnir guldu báðir afhroð, töpuðu samtals 27,7%. Er það mesta fylgistap stjórnarflokka í stjórnmálasögu Íslands. Sérstaklega var tap Samfylkingarinnar mikið, 16,9%, en Vinstri grænir töpuðu líka miklu, 10,8%, röskum helmingi fylgisins frá því í kosningunum 2009.
Nú þegar Jóhanna Sigurðardóttir dregur sig í hlé og heldur til Dýrafjarðar, en þangað renna öll vötn, sem kunnugt er, skilur hún flokk sinn eftir rjúkandi rúst. Hann háði misheppnaða kosningabaráttu, eflaust undir leiðsögn menntamannanna með hálfsoðnu þekkinguna, sem Samfylkingarfólk ber takmarkalausa virðingu fyrir, fyrirtækisins Arnarsson&Hjörvar og Jóhanns Haukssonar.
Það var fásinna að gera stjórnarskrármálið að einhverju úrslitaatriði, eins og Jóhanna reyndi fram á síðasta dag. Íslendingar hafa lítinn áhuga á því máli, eins og sést best á framboði Þorvaldar Gylfasonar prófessors, sem talaði jafnan digurbarkalega í nafni þjóðarinnar um stjórnarskrána, en framboð hans hlaut 2,5% atkvæða. 97,5% þjóðarinnar tóku því ekki undir með Þorvaldi.
Annað glappaskot Samfylkingarinnar var að gera aðild að Evrópusambandinu og upptöku evru að sérstöku baráttumáli. Þjóðin hefur ekki neinn sérstakan áhuga á Evrópusambandsaðild, eins og komið hefur fram í ótal skoðanakönnunum. Sennilega er best að afgreiða málið eins og Svisslendingar: Evrópusambandið stakk þegjandi og hljóðalaust umsókn þeirra um aðild niður í skúffu, og þar verður hún geymd, uns og ef Svisslendingar skipta um skoðun.
Þriðja málið, sem reyndist Samfylkingunni þungt í skauti, var Icesave-málið, eins og Árni Páll Árnason, eftirmaður Jóhönnu í formannssæti, benti á. Þar ber Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra mikla ábyrgð ásamt Jóhönnu og Steingrími J. Sigfússyni, sem var fjármálaráðherra, á meðan málið var til afgreiðslu. Það, sem þetta fólk fullyrti um Icesave-málið, reyndist allt rangt. Þau skötuhjúin ætluðu að læsa Íslendinga inni í skuldafangelsi og gera síðan Sjálfstæðisflokkinn að sökudólgi.
Samfylkingin á nú fárra kosta völ. Ég veit ekki, hvort Guðbjartur Hannesson hefði orðið heppilegri leiðtogi, því að hann er enn tengdari Jóhönnu og mistökum hennar en Árni Páll. Sennilega sameinast Samfylkingin og Björt framtíð (sem Guðmundur Andri Thorsson kallar í gremju sinni Svört samtíð, því að hann kennir henni um fylgishrun stjórnarflokkanna) undir forystu Guðmundar Steingrímssonar, sem yrði þá forsætisráðherraefni flokksins í næstu kosningum, enda sonur og sonarsonur forsætisráðherra. Þá tæki Ísland að líkjast Grikklandi, þar sem þrír ættliðir Papandreou hafa hver af öðrum verið forsætisráðherrar vinstri stjórna.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook