Hlustað á Ólaf Þ. Harðarson og Kjartan Gunnarsson

Í hádeginu miðvikudaginn 24. apríl hlustaði ég á fyrirlestra Ólafs Þ. Harðarsonar prófessors og Evu Heiðu Önnudóttur stjórnmálafræðings um kosningarnar framundan. Voru þeir hinir fróðlegustu. Ég verð þó að gera athugasemd við eitt, sem Ólafur sagði. Hann kvað erlenda blaðamenn furða sig á litlu fylgi stjórnarflokkanna, sem fengju bestu meðmæli Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og hægri sinnaðra viðskiptablaðamanna.

Þetta er eitthvað málum blandið. Þessir útlendingar eru þá illa upplýstir. Hér hefur enginn raunverulegur hagvöxtur verið frá bankahruni, aðeins smávægileg aukning neyslu í eitt eða tvö ár vegna þess, að fólk fékk að taka út lífeyrissparnað sinn. Hér hefur hallarekstur ríkissjóðs verið mjög mikill og vaxið ár frá ári. Ekki er tekið á neinu í ríkisfjármálum. Þessi hagstjórn getur hvergi fengið góð meðmæli.

Ef til vill eru útlendingarnir hrifnir af því, að forystumenn stjórnarflokkanna kikna jafnan í hnjáliðunum, þegar þeir heyra erlent mál talað. Það sýndu þeir í Icesave-deilunni, í hinni óþörfu lántöku hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og í hinum einkennilega gjörningi, þegar tveir viðskiptabankanna voru afhentir erlendum vogunarsjóðum í ógagnsæju ferli.

Um kvöldið hlustaði ég á Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, tala við Kjartan Gunnarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins, um kosningabaráttu fyrr og nú. Var samtal þessara tveggja þaulreyndu og þrautþjálfuðu stjórnmálamanna hið forvitnilegasta. Kjartan kvað kosningabaráttuna 1982 hafa verið ánægjulegasta og eftirminnilegasta þeirra þrettán, sem hann skipulagði fyrir Sjálfstæðisflokkinn á starfsárum sínum frá 1980 til 2006. Má sjá þáttinn hér.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband