Boðskapurinn sem Ríkisútvarpið hefur ekki áhuga á

Philip Booth, prófessor í tryggingafræðum og áhættustýringu í Cass Business School í City University í Lundúnum, hélt afar fróðlegt erindi um raunverulegar orsakir hinnar alþjóðlegu fjármálakreppu á fundi Viðskiptafræðideildar Háskóla Íslands og Rannsóknarseturs um nýsköpun og hagvöxt 13. mars 2013. Þar kynnti hann annað sjónarhorn en Ríkisútvarpið hefur flutt okkur látlaust í fjögur ár, allt frá bankahruninu haustið 2008.

Booth sagði, að kreppuna megi að sumu leyti rekja til mistækra ríkisafskipta (undirmálslána í Bandaríkjunum og lágvaxtastefnu Seðlabankans), en að sumu leyti til óhóflegrar kerfisáhættu, sem ekki hafi verið séð nægilega vel við.

Athygli Ríkisútvarpsins var vakin á því, að prófessor Booth væri væntanlegur til landsins til að kynna sjónarhorn, sem varla hefur heyrst í Silfri Egils, Speglinum og í fréttum Sjónvarpsins. Haft var samband við umsjónarmenn Silfurs Egils, Spegilsins og frétta Sjónvarpsins. Engu var svarað, og ekkert var sagt frá fyrirlestrinum í Ríkisútvarpinu, hvergi, ekki í Silfri Egils, ekki í Speglinum, ekki í fréttum útvarps eða sjónvarps. 

Til samanburðar má nefna, að sjónvarpið mætti og sagði frá fyrirlestri, sem finnskur embættismaður, Sixten Korkman, hélt á vegum Hagfræðideildar Háskóla Íslands og Evrópustofu, upplýsingamiðstöðvar Evrópusambandsins á Íslandi, 18. febrúar. Mælti hann þar með evru, eins og flestir viðmælendur Ríkisútvarpsins frá útlöndum hafa gert síðustu fjögur ár. Einnig mætti sjónvarpið og sagði frá fyrirlestri, sem bandarískur stjórnmálafræðiprófessor, Peter J. Katzenstein, hélt á vegum Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands, 13. mars 2013. Var hann um hina alþjóðlegu fjármálakreppu, en Katzenstein sagði um hana hið sama og flestir aðrir viðmælendur Ríkisútvarpsins síðustu fjögur ár, að hún væri kapítalismanum að kenna.

Ekki þarf að minna á, að þeir, sem gefið hafa út bækur gegn frjálshyggju og kapítalisma síðustu árin, til dæmis Stefán Snævarr og Ja-Hoon Chang, hafa umsvifalaust fengið að láta ljós sitt skína í Silfri Egils og öðrum þáttum Ríkisútvarpsins. Ekki á við því að amast. Það var sjálfsagt. En á sjónarhorn Booths ekkert erindi í Ríkisútvarpið líka? Er reglan sú, að við eigum öll að greiða, en aðeins sum að njóta?

Fyrirlestur Booths er nú hins vegar kominn á Youtube. Hér geta menn hlustað á sjónarmið, sem úthýst er í Ríkisútvarpinu.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband