Ágirnd og sjálfelska

Okkur er sagt, að dauðasyndirnar verði ekki fyrirgefnar á efsta degi. Þær eru samkvæmt kenningu kirkjufeðranna sjö talsins, á latínu superbia, avaratia, luxuria, invidia, gula, ira og acedia, en á íslensku er algengast að kalla þær í sömu röð dramb, ágirnd, lauslæti, öfund, græðgi, heift og hirðuleysi. Hin síðari ár hefur merking orðanna „ágirnd“ og „græðgi“ blandast nokkuð saman, en áður fyrr vísaði „græðgi“ einkum til þess, er menn kunnu sér ekki hóf í mat eða drykk, voru átvögl eða vínsvelgir. Ein ástæða til þessarar merkingarbrenglunar er eflaust, að enska orðið „greed“ merkir ágirnd, en „gluttony“ græðgi.

Ágirnd er líka stundum ruglað saman við sjálfselsku. Kristur sagði mönnum (Lk 12,15) að varast ágirnd, og Páll postuli taldi (1Tm 6, 10) fégirndina rót alls ills, eins og Hallgrímur Pétursson lagði út af í 16. Passíusálmi. Sjálfselskan er hins vegar hvergi bönnuð. Öðru nær. Í boðorðum gamla og nýja testamentisins um, að menn skuli elska náunga sína eins og sjálfa sig, felst beinlínis, að þeir skuli elska sjálfa sig. En hvað í sjálfum sér? Séra Arnljótur Ólafsson, sem gaf 1880 út fyrsta íslenska hagfræðiritið, Auðfræði, benti á, að „mennirnir eru engan veginn misgóðir eftir því hve mjög þeir elska sjálfan sig, heldur eftir hinu hvað þeir elska hjá sjálfum sér og í sínum kjörum.“ Sjálfið takmarkast ekki heldur nauðsynlega við einstaklinginn. Móður, sem ann barni sínu eins og sjálfri sér, hefur fært sjálf sitt út.

Munurinn á ágirnd og sjálfselsku er, að ágirndin beinist ætíð gegn öðrum, felur í sér ásælni. Sjálfselskan getur hins vegar verið áreitnislaus. Hvernig geta menn síðan elskað náunga sína í raun? Séra Arnljótur svaraði hinu sama og Adam Smith: með því að keppa á frjálsum markaði að hámarksgróða, því að hann er vísbending um, að þeim hafi tekist betur en aðrir að fullnægja þörfum náunga sinna. Þetta hlýtur stuðning af því, hverjar tvær aðrar dauðasyndirnar eru, öfund og hirðuleysi. Menn eiga ekki að öfunda þá, sem vegnar vel, og þeir eiga að leggja sig sjálfa fram um að leysa verkefni lífsins.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 9. febrúar 2013.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband