3.4.2013 | 12:28
Markaðskapítalismi og klíkukapítalismi
Mér er minnisstætt, þegar Verslunarráðið bauð Milton Friedman í kvöldverð í Þingholti 31. ágúst 1984. Einn veislugesturinn spurði Friedman, hver væri hættulegasti óvinur kapítalismans. Hann svaraði að bragði: Horfið í spegil! Það eru kapítalistarnir. Þeir vilja alltaf vernd fyrir samkeppni.
Hugsun Friedmans var svipuð og Ayns Rands í skáldsögum hennar, þar sem hún deilir af mikilli mælsku á crony capitalism eða klíkukapítalisma.
Í fyrirlestri mínum í Háskóla Íslands 19. febrúar síðast liðinn gerði ég greinarmun á markaðskapítalisma, eins og fylgt var á Íslandi 19912004, og klíkukapítalisma, sem náði hér yfirhöndinni 2004, en féll um koll í fjármálakreppunni 2008.
Markaðskapítalismi einkennist af virðingu fyrir skattgreiðendum og neytendum og frjálsu vali þeirra um það, hvernig þeir verja sjálfsaflafé sínu. Hann felur í sér opið hagkerfi og fjöruga samkeppni. Þar er leiðarljósið að virkja ávinningsvonina í almannaþágu. Slíkur kapítalismi er öflugasta tækið, sem enn hefur fundist til að breyta fátækt í bjargálnir.
Klíkukapítalismi er hins vegar, þegar fámenn auðklíka nær víðtækum áhrifum og jafnvel völdum, eins og gerðist hér á landi í hinum hatrömmu átökum ársins 2004 (ekki síst um fjölmiðlafrumvarpið). Þessi auðklíka tæmdi bankana, keypti upp fyrirtæki og takmarkaði samkeppni. Eftir bankahrunið sást, að hún skuldaði miklu meira en áður hafði verið talið, en á mörgum kennitölum. Þótt margir gáfaðir og góðviljaðir menn hefðu starfað í bönkunum og í fjármálaeftirlitinu fyrir bankahrunið, var þeim þetta ekki að fullu ljóst. En með þessu jókst kerfisáhættan stórlega á Íslandi umfram það, sem gerðist í grannríkjunum.
Þessi auðklíka merkti lystisnekkju sína með tölunni 101 og einkaþotuna með sömu tölu. Þetta var eflaust ekki aðeins gert til þess að minnast hirðskálds klíkunnar, Hallgríms Helgasonar, höfundar bókarinnar 101 Reykjavík, heldur líka til að hælast um af því, sem klíkunni tókst óneitanlega: Skuldirnar voru á 100 kennitölum, þótt skuldarinn væri 1.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:30 | Facebook