31.3.2013 | 11:36
Guðni Th. Jóhannesson hefur orðið
Nú fyrstu vikurnar á árinu 2013 vildi svo til, að ég fór á tvo fróðlega fyrirlestra dr. Guðna Th. Jóhannessonar, nýráðins sagnfræðilektors í Háskóla Íslands.
Fyrri fyrirlesturinn var hjá Sagnfræðingafélaginu þriðjudaginn 29. janúar 2013 og bar titilinn: Hvað ef? Íslandssagan sem gæti hafa gerst. Guðni varpaði fram mörgum umhugsunarefnum, en ég staldraði við tvö. Annað var, hvað hefði gerst, hefðu Þjóðverjar hernumið Ísland 1940, en ekki Bretar. Margir stjórnmálamenn og aðrir íslenskir frammámenn hafa síðar lýst því, hve þeim létti, þegar þeir sáu, að herskipin, sem komu að landi 10. maí, voru bresk, en ekki þýsk. Þjóðverjar gengu fram af miklu meiri hörku í Noregi og Danmörku en Bretar á Íslandi. Eitt dæmið er, að 1941 hvatti norski lögfræðingurinn Viggo Hansteen (sem margir Íslendingar þekktu) til verkfalls gegn þýsku hernámsyfirvöldunum. Hið sama gerðu Eðvarð Sigurðsson og Hallgrímur Hallgrímsson hér á landi gegn bresku hernámsyfirvöldunum sama ár. Þjóðverjar skutu Hansteen umsvifalaust. Bretar létu sér nægja, að íslensk yfirvöld vistuðu þá Eðvarð og Hallgrím á Litla Hrauni í nokkra mánuði. Þar tóku þeir á móti heimsóknum samherja sinna, annarra kommúnista, og létu taka af sér ljósmyndir borginmannlegir, og Hallgrímur skrifaði endurminningar úr Spánarstríðinu. (Hallgrímur hafði sem kunnugt er hlotið hernaðarþjálfun í Moskvu.)
Hitt umhugsunarefnið er, hvað hefði gerst, hefðu Rússar hernumið Ísland 1948, til dæmis með því að sigla stórum flota, sem þá var að fiskveiðum skammt utan landsteinanna, til Íslands og skipa þaðan út hermönnum (svipað og Þjóðverjar höfðu gert í Noregi). Þeir hefðu ekki þurft mikinn herafla til að taka Ísland. Raunar hafa þeir Arnór Hannibalsson og Árni Bergmann (sem fyrstir íslenskra námsmanna settust á skólabekk í Moskvu eftir lát Stalíns) báðir skrifað um það, sem gerst hefði á Sovét-Íslandi, óskalandinu. Arnór skrifaði (árið 1963):
Ríkisstjórn undir forsæti einhvers góðborgara. Menntamenn fluttir til staðar hinum megin á hnettinum vegna burgeisalegrar þjóðernisstefnu. Íslendingar sjálfir aðeins um 40% íbúanna í landinu. Afkastaaukning iðnaðarins 2000% á fimm árum. Jóhannes úr Kötlum hengdur fyrir að yrkja ekki kvæði um hinn Mikla, en læða þess í stað á loft burgeisalegum sveitaferskeytlum, sem sáðu hugmyndaleysi og andvaraleysi gagnvart hættunum og óvinunum. Ekkert gefið út á íslenskri tungu nema einn tvíblöðungur í sama broti og Lesbók Morgunblaðsins. Þar hefði félagi Da-da-son [Sigfús Daðason] líklega orðið prófarkalesari. Kristinn E. Andrésson forseti nefndar til að hreinsa íslenskt mál af próvinsíalismanum, en látinn víkja, þegar hann neitaði að löggilda orðið kúltúra (í kvk.) í staðinn fyrir orðið menning. Einar Olgeirsson formaður áætlunarráðs, en sviptur embætti, þegar hann gekk of ákaft fram í hreinsun og var einn orðinn eftir í stofnuninni. Því var hann tekinn úr umferð fyrir skemmdarverk. Úr síðasta bústað sínum, rammgirtum, skrifaði hann hástemmdar lofgerðir og hollusturollur til Sonar Sólarinnar á fjallstindi heimsins, ásamt með hvatningu til Flokksins að ganga betur fram gegn þjóðaróvinunum. Allir skólar á erlendu máli undir stjórn Brynjólfs Bjarnasonar.
Árni Bergmann skrifaði (árið 1992):
Fyrst fjúka hausar af oddvitum borgaralegra afla, þá af þeim sósíaldemókrötum, sem ekki sýna auðsveipni, og að lokum kemur röðin af byltingarmönnunum sjálfum, það er að segja þeim, sem helst eru hugsjónamenn og ætluðu sér á annan stað en þeir eru komnir. Við tekur ný stétt, vanheilög blanda af ofstækismönnum valdsins, sem tekst einhvernveginn að fleyta sér áfram í tilverunni á dólgamarxískum formúlum um lögmál sögulegrar þróunar og svo nýliðum úr ýmsum áttum, hundingjum valdsins, sem kunna þá list að klifra upp eftir hvaða valdkerfi sem vera skal.
Það er ekki að ófyrirsynju, að Áki Jakobsson, sem verið hafði frammámaður í hreyfingu kommúnista og jafnvel ráðherra á þeirra vegum, sagði: Íslenskir kommúnistar mega vera þakklátir fyrir að hafa ekki komist til valda, því þá hefðu margir þeirra orðið verri menn en þeir nú eru. Allt er afgreitt með þessum orðum: Flokkurinn, kenningin þarfnast þess og hins. Og í krafti þess er ofbeldi beitt.
Síðari fyrirlestur Guðna Th. Jóhannessonar var hjá Churchill-klúbbnum laugardaginn 3. febrúar um sagnfræðínginn Winston Churchill. Þar fór Guðni á fróðlegan og greinargóðan hátt yfir sagnfræðirit Churchills, meðal annars það, hversu mikinn þátt hann átti sjálfur í þeim, því að hann hafði heilan her aðstoðarmanna við skriftir. Churchill sagðist hafa lært mest af þeirri sagnfræðihefð, sem þeir Edward Gibbon og Macaulay lávarður komu úr, og er þar ekki leiðum að líkjast. Ég dáist sjálfur að þeirri hefð, þótt mér fyndist Gibbon skrifa aðeins of skrautlegan stíl, ofhlaðinn. Macaulay notaði einfaldari og hraðari stíl, og það get ég sagt Einari Má Jónssyni, sem tekur upp gagnrýni ýmissa dalakofasósíalista nítjándu aldar á kapítalismann, að Macaulay svaraði þeim afar vel í frægri ádeilu á skáldið Southey. Hvað sem því öllu líður, var Churchill stórbrotinn og margbrotinn einstaklingur, eins og skýrt kom fram í fyrirlestri Guðna, síður en svo gallalaus, en sannkallað mikilmenni.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook