30.3.2013 | 20:42
Veðmál Bjarna Benediktssonar
Setningarræða Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, á landsfundi var vel hugsuð, vel samin og vel flutt. Hann er nú sá formaður stjórnmálaflokks, sem helst hefur þunga, pondus. Boðskapurinn var einfaldur: Lækkum skatta til að örva atvinnusköpun. Komum í veg fyrir það stórkostlega atvinnuleysi, sem sést í Evrópu, aðallega hjá ungu fólki, og sköpum fleiri atvinnutækifæri.
Þá segja andstæðingarnir: Hvernig er hægt að lækka skatta við núverandi skilyrði? Svarið er, að sósíalistar hugsa sér alltaf, að lífið sé kyrrstætt. Þeir halda, að kakan sé föst stærð, sem við eigum að halda langa fundi um, hvernig skipta eigi, og skipta henni síðan í smærri og smærri sneiðar.
En frumskilyrði kökunnar er öflugt bakarí, og kakan getur stækkað, ef bakarinn fær það verð fyrir kökuna, sem hann er ánægður með. Lífið er ekki kyrrstætt, heldur á sér þar stað lífræn þróun (og stundum öfugþróun, eins og við höfum séð síðustu árin).
Í ræðu sinni veðjaði Bjarni Benediktsson á það, að með lækkun skatta myndu fjárfestingar aukast, hjól atvinnulífsins taka að snúast, fólk að skapa meiri verðmæti. Þetta er veðmál, sem alltaf vinnst, eins og Birgir Þór Runólfsson hagfræðidósent hefur sýnt í nokkrum fróðlegum línuritum.
En þá segja andstæðingarnir: Verið getur, að veðmálið vinnist til langs tíma. En hvað gerist til skamms tíma? Hvernig á að brúa bilið, þegar tekjur ríkisins lækka vegna skattalækkana? Svarið er einfalt. Það er verulegt svigrúm til að hagræða í ríkisrekstri. Í annan stað kemur vel til greina að selja einhverjar eignir, og í þriðja lagi má taka lán innan lands eða utan til skamms tíma, sé það notað til að brúa bilið, uns skatttekjur taka að aukast til langs tíma.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook