Skemmtilegur afmælisdagur

Ég varð sextugur þriðjudaginn 19. febrúar, og var dagurinn hinn skemmtilegasti. Ég hélt fyrirlestur undir nafninu „Frjálshyggjan, kreppan og kapítalisminn“ í Hátíðasal Háskóla Íslands klukkan fimm síðdegis, og var hvert sæti setið, og þurftu nokkrir að standa eða koma sér fyrir á efri svölum. Þar fór ég yfir þá gagnrýni, sem frjálshyggja og kapítalismi hafa sætt frá hruni, meðal annars í bókum Stefáns Snævarrs, Stefáns Ólafssonar, Ha-Joon Changs, Einars Más Guðmundssonar og Einars Más Jónssonar, og reyndi að svara henni. Ómar Kristmundsson var fundarstjóri, en Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála stóð að fundinum. Myndir af fyrirlestrinum má meðal annars sjá hér.

Að fyrirlestrinum loknum urðu nokkrar umræður. Þórólfur Þórlindsson prófessor benti á, að ég hefði aðallega rætt um fortíðina. Hverja teldi ég leið Íslendinga út úr ógöngum síðustu ára? Ég svaraði því til, að mikilvægast væri að lækka skatta og minnka ríkisafskipti, setja hjól atvinnulífsins aftur í gang. Gunnlaugur Jónsson fjármálafræðingur spurði, hverja ég teldi heppilegasta framtíðartilhögun gjaldeyrismála á Íslandi. Ég rifjaði upp, að sjálfur hefði ég lagt til að taka upp annan gjaldmiðil snemma í níunda áratug, áður en nokkur annar (að dr. Sigurði B. Stefánssyni hagfræðingi undanteknum) hefði orðað það. Jóhannes Nordal hefði hins vegar bent á veigamikla mótbáru: Ef við tökum upp annan gjaldmiðil, þá verðum við að hegða okkur vel, því að við getum ekki notað peningaprentun eða lánsfjárþenslu til að sleppa undan beinum afleiðingum óskynsamlegrar hegðunar okkar. En ef við getum hegðað okkur vel, þá er óþarfi að taka upp annan gjaldmiðil. Réttast væri að kippa okkar málum í lag, leyfa valfrelsi um gjaldmiðla og athuga síðar meir, hvort við héldum í krónuna eða tækjum upp annan gjaldmiðil. Yrði síðari kosturinn fyrir valinu, þá litist mér best á myntslátturáð með breskt pund sem viðmiðunarmynt. Viðskiptablaðið tók við mig stutt viðtal á Netinu, sem skoða má hér.

Síðan var móttaka í Hámu, mötuneyti Háskólans, milli klukkan sex og átta. Sóttu hana á að giska tvö hundruð manns. Gísli Marteinn Baldursson var þar veislustjóri, en þeir Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra, og dr. Ómar Kristmundsson prófessor, forseti stjórnmálafræðideildar, fluttu þar ávörp. Voru þau bæði vel samin og vel flutt og mjög vinsamleg í minn garð. Pétur Emil Júlíus Gunnlaugsson og tveir vinir hans léku jasslög í hófinu af mikilli fimi. Mér barst fjöldi gjafa mér til nokkurrar undrunar, og voru þær undantekningarlaus vel valdar. Myndir úr hófinu eru meðal annars hér og hér og hér og hér.

Um kvöldið héldu nokkrir góðir vinir og samverkamenn mér kvöldverð. Þar var Kjartan Gunnarsson veislustjóri, en Davíð Oddsson, ritstjóri og fyrrverandi forsætisráðherra, flutti ávarp, sem var í senn fyndið og elskulegt, eins og hans var von og vísa. Í byrjun hófsins lék kvartett frá Sinfóníuhljómsveit Íslands nokkur fögur lög, aðallega eftir Mozart. Við það tækifæri hélt áfram að rigna yfir mig gjöfunum, og voru þær satt að segja stórkostlegar. Ég verð ekki oft orðlaus, en þar varð ég allt að því orðlaus.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband