26.3.2013 | 22:43
Icesave og Stefán Ólafsson: Nýjar upplýsingar
Stefán Ólafsson prófessor birti 28. janúar 2013 blogg í tilefni af úrskurði eða áliti EFTA-dómstólsins um Icesave-deiluna. Þar sýndi hann línurit, sem hann kvað vera frá fjármálaráðuneytinu. Samkvæmt því var kostnaður af leið ríkisstjórnar Geirs H. Haardes í Icesave-deilunni miklu hærri en af leiðum ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur (Svavarssamningnum og Buchheit-samningnum).
Ýmislegt er við þennan málflutning að athuga.
Í fyrsta lagi er þetta blogg Stefáns að stofni samhljóða bloggi, sem hann birti 27. júní 2012 (með sama línuriti), nema hvað hann sleppir nú eigin upphafsorðum þá: Það verður ljósara með hverjum degi sem líður að þjóðin var gróflega blekkt með málflutningi sumra andstæðinga samningaleiðarinnar í Icesave-málinu. Forsetinn gerði einnig alvarleg mistök þegar hann vísaði Icesave III (Buchheit-samningnum) í þjóðaratkvæðagreiðslu, á röngum forsendum og gegn mjög rúmum meirihluta á Alþingi. Fróðlegt væri að vita, hvers vegna Stefán sleppti í síðara blogginu eigin upphafsorðum úr fyrra blogginu.
Í öðru lagi er línuritið, sem Stefán birtir, óskýrt. Þar er kostnaður af ólíkum leiðum í Icesave-deilunni sýndur sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. En landsframleiðslu hvaða árs? Og á hvaða gengi? Og hvers vegna var áætlaður kostnaður seðlabankans vegna tilrauna til að bjarga bankakerfinu (gjaldþrot seðlabankans, eins og Stefán kallar það) sýndur með?
Í þriðja lagi var enginn samningur gerður í Icesave-deilunni í tíð ríkisstjórnar Geirs H. Haardes, svo að ekkert er þar sambærilegt við samningana, sem gerðir voru síðar og lagðir fyrir Alþingi. Til voru minnisblöð og samningsdrög, og mælt var fyrir heimildum til samninga á Alþingi, en enginn samningur var gerður. Ástæðan til þess, að samningur var ekki gerður, var ekki aðeins sú, að stjórnin féll skyndilega í janúarlok 2009, heldur líka, að ráðamenn þá vildu ekki sæta afarkostum Breta og Hollendinga.
Ef Stefán Ólafsson vill ekki trúa sjálfstæðismönnum um þetta, þá ætti hann að hlusta á Kristrúnu Heimisdóttur, sem var þá aðstoðarmaður utanríkisráðherra. Hún sagði í athugasemd 10. febrúar 2010 um ein samningsdrögin: Ýmis skjöl af þessu tagi eru til, enda reyndu Bretar og Hollendingar margsinnis að knýja Íslendinga til að ganga að tvíhliða lánasamningum sem Íslendingar töldu óaðgengilega, og höfðu samningsskjöl til reiðu með aðstoð íslenskra lögmannsstofa. Þetta skjal sætir því engum tíðindum og var aldrei borið undir ráðherra.
Sigurður Líndal lagaprófessor spurði líka einfaldrar spurningar í grein hér á Pressunni, eftir að fyrsti Icesave-samningurinn var gerður: Ef Ísland hefði tekið á sig ábyrgð með hinum umsömdu viðmiðum hefði þá þurft að gera sérstakan samning um ríkisábyrgð 5. júní 2009 sem undanfarið hefur legið fyrir Alþingi?
Í fjórða lagi er línurit það, sem Stefán Ólafsson birti í bloggum sínum, ekki frá fjármálaráðuneytinu, þótt hann segi svo vera. Tölurnar í línuritinu eru vissulega úr reikningsdæmi, sem Svavar Gestsson bað fjármálaráðuneytið um að leysa, en línuritið er ekki þaðan, enda er það aðeins áróðursmynd. Ég skrifaði fjármálaráðuneytinu 29. janúar og spurðist fyrir um þetta. Ég fékk eftirfarandi svar frá Elsu Sverrisdóttur 30. janúar:
Fjármála- og efnahagsráðuneytið fær ekki séð að línuritið sem vísað er til, og Stefán Ólafsson birtir á vefsíðu sinni, hafi verið unnið eða birt opinberlega af ráðuneytinu.
Með öðrum orðum: Stefán vísar í samning, sem aldrei var gerður, og línurit, sem aldrei var dregið upp.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook