Hvað varð um söfnunarféð?

Stúdentafélag Reykjavíkur hélt marga merkilega fundi um þjóðmál um og eftir miðja tuttugustu öld. Sérstaklega varð mörgum minnisstæður fjölmennur fundur félagsins um andlegt frelsi í Tjarnarbíói fimmtudagskvöldið 12. janúar 1950, enda var umræðunum útvarpað sunnudaginn á eftir. Framsögumenn voru Tómas Guðmundsson skáld og Þórbergur Þórðarson rithöfundur, og voru tildrög þau, að Tómas hafði gert gys að íslenskum sósíalistum á fullveldisfagnaði 1. desember 1949. Kvað hann engu líkara en þeir hæfu kvöldbænir sínar á orðunum: „Faðir vor, þú sem ert í Moskvu!“ Málgagn sósíalista, Þjóðviljinn, réðist þá harkalega á „skáld borgarastéttarinnar“ eins og blaðið kallaði Tómas og kvað hann hafa staðið frammi fyrir þjóð sinni sem „þriðja flokks gamanleikari“.

Á stúdentafélagsfundinum fluttu þeir Tómas og Þórbergur báðir innblásnar ræður, sem prentaðar eru í ritsöfnum þeirra og enn er fróðlegt að lesa. Fjörugar umræður urðu eftir framsöguerindi þeirra, og tóku margir til máls, þar á meðal Geir Hallgrímsson, Gylfi Þ. Gíslason og Þorvaldur Þórarinsson lögfræðingur, kunnur harðlínumaður í Sósíalistaflokknum. Þorvaldur kvað andlegt frelsi fullkomið í Ráðstjórnarríkjunum (sem þá voru undir stjórn Stalíns), og vildi hann glaður flytjast þangað austur, hefði hann tækifæri til.

Sjálfstæðismenn tóku Þorvald á orðinu og hófu söfnun í farareyri fyrir hann aðra leiðina austur, og sá dagblaðið Vísir um að taka við framlögum og birti jafnóðum lista um gefendur, en heilu vinnustaðirnir tóku þátt í söfnuninni. Talsvert fé safnaðist til austurfarar Þorvaldar, um 1.500 krónur, sem hefði þá meira en nægt aðra leiðina. En Þorvaldur vildi ekki þiggja féð. Ég sé, að Leifur Sveinsson lögfræðingur veltir fyrir sér í Morgunblaðinu, hvað hafi orðið um söfnunarféð, en ég rannsakaði það, er ég setti saman bók mína um Íslenska kommúnista 1918–1998. Hef ég fyrir satt, að féð hafi loks verið afhent Fegrunarfélagi Reykjavíkur. 

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 26. janúar 2013.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband