Arnór Hannibalsson: Minningarorð

Arnór Hannibalsson sneri heim 1961 eftir sjö ára háskólanám í Moskvu, Varsjá og Kraków. Hann var þá áhugasamur sósíalisti, sem vildi fræða landa sína um reynsluna af sósíalisma. Gerðist hann umsjónarmaður æskulýðssíðu Þjóðviljans. Eitt sinn tók hann þá viðtal við Skúla Magnússon, sem var nýkominn frá Kína. Þar sagði meðal annars, að einhverjir bændur hefðu verið vegnir í „Stóra stökkinu“ kínverska 1958–1961. Sigurður Guðmundsson, ritstjóri Þjóðviljans, tilkynnti Arnóri, að slík skrif yrðu ekki birt í blaðinu. Sumarið 1961 bauð Arnór Rétti grein um ríkisvald í Ráðstjórnarríkjunum, en ritstjórinn, Einar Olgeirsson, hafnaði henni, þar eð hún væri ekki „aktúel“. Í janúar 1962 bauð Arnór Þjóðviljanum gagnrýna grein um Stalínstímann, en ritstjórar blaðsins, Sigurður Guðmundsson og Magnús Kjartansson, synjuðu henni birtingar. Staðfesti framkvæmdanefnd Sósíalistaflokksins þá ákvörðun. Í febrúar 1963 bauð Arnór Sigfúsi Daðasyni, ritstjóra Tímarits Máls og menningar, aðra gagnrýna ritgerð um frelsi og ánauð undir ráðstjórn, en hún var endursend með skætingi.

Íslenskir sósíalistar vildu ekki heyra neitt misjafnt um reynsluna af sósíalisma. Virtist vera botnfrosið fyrir skilningarvitin á þeim. En Arnór prentaði hinar endursendu greinar sínar 1963 í bókinni Valdinu og þjóðinni. Safni greina um sovét. Sama ár veitti Arnór Halldóri K. Laxness aðstoð við að setja saman Skáldatíma, uppgjör skáldsins við sósíalisma, enda var Arnór þá þegar allra manna fróðastur um rússneska sögu. Arnór birti ári síðar ádeilurit á íslenska sósíalista, Kommúnisma og vinstri hreyfingu á Íslandi. Jafnframt gagnrýndi hann opinberlega þjónkun íslenskra sósíalista við Kremlverja. Þeim var nóg boðið. Páll Bergþórsson, formaður Sósíalistafélags Reykjavíkur, skrifaði framkvæmdanefnd Sósíalistaflokksins í septemberlok 1964 og krafðist þess, að Arnór yrði rekinn úr flokknum. Höfðu nú leiðir skilið með Arnóri og íslenskum sósíalistum. En eftir að mistekist hafði að þagga niður í honum, var honum útskúfað og rógi dreift skipulega um hann.

Með því að segja sannleikann um sósíalistaríkin, á meðan aðrir í sömu sporum þögðu, sýndi Arnór Hannibalsson tvo eðlisþætti sína, réttlætiskennd og hugrekki. Hann var aldrei augnaþjónn. Þriðji þátturinn í fari Arnórs var yfirgripsmikil þekking á heimspeki og sögu. Að fornu hefði hann verið nefndur Arnór fróði. Eftir doktorspróf frá Edinborgarháskóla gerðist hann heimspekiprófessor í Háskóla Íslands, en lét sig áfram varða örlög manna og þjóða austantjalds. Arnór var glaður í bragði, þegar við sátum kvöldverð í boði Davíðs Oddssonar í Ráðherrabústaðnum 26. ágúst 1991 með utanríkisráðherrum Eystrasaltsríkjanna, eftir að Íslendingar höfðu endurnýjað viðurkenningu á þeim. Eftir fall Ráðstjórnarríkjanna viðaði hann að sér ótal skjölum úr söfnum þaðan, en afhenti mér þau til úrvinnslu, þegar heilsan brást, og voru þau mér ómetanleg, þegar ég skrifaði Íslenska kommúnista 1918–1998. Með Arnóri er genginn kjarkaður og réttsýnn öðlingur með óvenjuvíða sýn á umheiminn.

(Minningarorð í Morgunblaðinu 12. janúar 2012.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband