21.3.2013 | 18:18
Tvö dæmi mega ekki gleymast
Kolbeinn Óttarsson Proppé, kosningastjóri Vinstri grænna í Reykjavík 1999, en nú blaðamaður á Fréttablaðinu, skrifar í fréttaskýringu, að Icesave-málið sé dæmi um það, að stjórn sé hlynnt samningum við önnur ríki, en stjórnarandstaða ekki. Þetta er almennt ekki rangt, svo langt sem það nær. Gallinn er hins vegar sá, að þessi athugasemd á ekki við um Icesave-málið. Þar vildi stjórnin ekki aðeins semja, heldur líka semja af sér.
Ég skal nefna tvö lítil dæmi um það, hversu áhugalítil stjórnin var um að bæta vígstöðu Íslendinga, en mörg fleiri eru til.
Annað var, þegar norsk-franska baráttukonan Eva Joly skrifaði grein til stuðnings Íslendingum í Icesave-málinu. Taldi hún kröfur Breta og Hollendinga á hendur þeim ekki réttmætar, gagnrýndi framkomu ríkjanna og taldi greiðslubyrði samkvæmt fyrsta Icesave-samningnum þyngri en þjóðin gæti risið undir. Birtist greinin í nokkrum erlendum blöðum og einnig í Morgunblaðinu 1. ágúst 2009. Þá skrifaði aðstoðarmaður Jóhönnu Sigurðardóttur, Hrannar B. Arnarsson (sá sem gerði Jón Sigurðsson að Dýrfirðingi), ólundarlega á Facebook-síðu sinni: Dettur Evu í hug að þessi grein auki traust á Íslandi erlendis? Veit hún ekki að megnið af erlendu lánunum (eiginlega allt nema Icesave) er til að styrkja gjaldeyrisforðann og þar myndast eign á móti? Held hún ætti að halda sig við ráðgjöf við sérstaka saksóknarann og láta aðra um efnahagsmálin.
Hitt var, að Davíð Oddsson benti á það í viðtali við Morgunblaðið 5. júlí 2009, að nefnd undir forystu Trichets, seðlabankastjóra Frakklands og síðar seðlabankastjóra Evrópu, hefði komist að þeirri niðurstöðu í skýrslu, að ákvæði um innstæðutryggingar ættu ekki við um bankahrun, enda eru slík ákvæði jafnan um gagnkvæma ábyrgð banka. Þessi skýrsla væri til í utanríkisráðuneytinu. En hver voru viðbrögðin? Þau voru að gera að aðalatriði, að í endursögn blaðamannsins hafði slæðst villa, sem ekki var komin frá Davíð, um, að skýrslan hefði verið unnin fyrir OECD. Hitt var ekki gert, að fara eftir þessari ábendingu Davíðs, sem hefði styrkt málstað Íslendinga í viðureigninni við Breta og Hollendinga, ekki síður í fjölmiðlum en við samningaborðið.
Í ljósi sögunnar er það ráð Hrannars B. Arnarssonar til Evu Joly að láta hann og aðra stjórnarsinna um efnahagsmálin hins vegar gráthlægilegt.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook