Anna Funder í Kiljunni

Þáttur Egils Helgasonar, Kiljan, var eins og hann getur verið bestur, þegar hann ræddi við ástralska rithöfundinn Önnu Funder miðvikudagskvöldið 23. janúar 2013. Egill naut þess þar, hversu víðlesinn hann er og mikill tungumálamaður. Viðmælandinn, Anna Funder, hafði líka óvenjulega útgeislun. Yfir henni hvílir einhver ójarðneskur þokki, eins og Halldór Kiljan myndi líklega orða það. Bók hennar, Stasiland, er mjög góð, eins og Egill benti á. Anna Funder kom hingað til lands í boði Rannsóknarseturs um nýsköpun og hagvöxt síðastliðið haust, og þá var viðtalið tekið. Flutti hún erindi á alþjóðlegri ráðstefnu um fórnarlömb kommúnismans 22. september 2012 og sagði síðan á fundi Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur frá nýútkominni skáldsögu sinni, All That I Am, sem hefur hlotið mjög lofsamlega dóma. Hér er heimildaþáttur á Youtube um Önnu Funder og Stasiland.

Samtal þeirra Egils og bókmenntagagnrýnendanna Fríðu Bjarkar Ingvarsdóttur og Þrastar Helgasonar í sama þætti um Undirstöðuna eftir rússnesk-bandarísku skáldkonuna Ayn Rand var öllu síðra. Undirstaðan heitir Atlas Shrugged á ensku og hefur selst í hátt í átta milljónum eintaka um heim allan. Almenna bókafélagið gaf bókina út haustið 2012 í prýðilegri þýðingu Elínar Guðmundsdóttur. Undirstaðan er í senn læsileg og skemmtileg ástarsaga og ástríðuþrungin vörn fyrir kapítalisma. Aðalsöguhetjan, bandaríska kaupsýslukonan Dagný Taggart, sér hvern framkvæmdamanninn af öðrum hverfa, og smám saman hætta hjól atvinnulífsins að snúast. Þau Fríða Björk og Þröstur töluðu bæði um frjálshyggju sem eitthvert furðufyrirbæri, nánast eins og loftstein úti í geimi, en viðurkenndu þó, að bókin væri áhrifamikil og athyglisverð, sem eru orð að sönnu.

Ayn Rand hélt því fram, að menn ættu ekki að skammast sín fyrir að elska sjálfa sig. Þótt sjálf væri hún ekki trúuð, heldur herskár guðleysingi, er þessi boðskapur hennar ekki í mótsögn við kenningu kristninnar, sem er einmitt, að menn eigi að elska náunga sína eins og sjálfa sig, sem merkir auðvitað, að menn eiga að elska sjálfa sig eins og náunga sína. Og hvernig geta menn elskað náunga sína? Með því að fara eftir upplýsingum markaðarins um það, hvernig þeir geti nýtt hæfileika sína best í þágu annarra, og þær upplýsingar fá þeir með gróða og tapi í frjálsri samkeppni á markaði. Þeir græða, ef þeim tekst að nýta hæfileika sína til að fullnægja þörfum annarra, og þeir tapa, ef þeim mistekst það. Gera verður strangan greinarmun á sjálfselsku og ágirnd, sem er ein af dauðasyndunum sjö. Ég ræði þetta mál betur í fyrirlestri í boði Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála í hátíðasal Háskóla Íslands 19. febrúar 2013, en nánari upplýsingar um hann eru hér.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband