14.3.2013 | 17:06
Pólland
Þegar ég undirbjó fyrirlestur, sem ég flutti á dögunum um stjórnmálaskörunginn Winston Churchill, bar Pólland á góma í samtali við einn vin minn. Ég benti á, að eftir Münchenarsamkomulagið 1938 tóku Pólverjar þátt í að sundurlima Tékkóslóvakíu, stukku á hið varnarlausa ríki eins og hrægammur. Engu að síður fóru Vesturveldin í stríð við Þýskaland, eftir að Hitler réðst inn í Pólland að vestanverðu, en skömmu síðar réðst Stalín inn í landið að austanverðu (eftir leynisamkomulag við Hitler), en ekki var farið í stríð við hann.
Vinur minn benti mér þá á aðra athyglisverða staðreynd: Stríðið hófst til að frelsa Pólland úr klóm voldugs nágranna. En eftir stríð var það skilið eftir í klóm voldugs nágranna. Í þeim skilningi var stríðið tilgangslaust.
Hlutskipti Póllands á tuttugustu öld hefur verið sorglegt. Allri alvöru fylgir þó nokkurt gaman. Bandaríski kvikmyndaleikstjórinn Woody Allen sagði í kvikmyndinni Manhattan Murder Mystery frá 1993: Ég get ekki hlustað mikið á Wagner. Mig fer þá að langa til að leggja Pólland undir mig. Hitler og aðrir nasistar höfðu mikið dálæti á þýska tónskáldinu Wagner.
Frjálslyndi flokkurinn íslenski, sem varð til upp úr 1924 og sameinaðist 1929 Íhaldsflokknum í Sjálfstæðisflokknum, hafði kjörorðið: Ísland fyrir Íslendinga! Svipað kjörorð hafði heyrst í Svíþjóð 1886: Sverige för Svenskarna! Þá sagði háðfuglinn Falstaff Fakir (sem hét raunar Wallengren), að sitt kjörorð væri: Nordpolen åt nordpolackarne (Norðurpólinn fyrir Norður-Pólverjana).
Pólski háðfuglinn Stanislaw Lec lýsti einnig tuttugustu öldinni vel í tveimur umhugsunarverðum setningum í bókinni Úfnum hugsunum (Mysli nieuczesane), sem kom út 1959. Önnur er: Þegar myndastyttur eru brotnar, ætti að hlífa stöllunum. Þeir koma alltaf í góðar þarfir. Hin setningin er spurning: Teljast það framfarir, þegar mannæta notar hníf og gaffal?
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 5. janúar 2013, sóttur í ýmsa staði í bók mína, Kjarna málsins. Fleyg orð á íslensku, sem er alltaf tilvalin tækifærisgjöf og fæst í öllum góðum bókabúðum, eflaust á viðráðanlegu verði.)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 1.9.2019 kl. 10:31 | Facebook