Skáldskapur og skrímsladeild

Hinn sjöunda janúar 2013 bloggaði ég um tvær bækur, sem ég hafði lesið í löngum flugferðum og mælti hiklaust með. Aðra þeirra hafði ég keypt á Heathrow-flugvelli í enskri þýðingu, French suite (Frönsk svíta), eftir rússnesk-frönsku skáldkonuna Irene Nemirovsky. Nú fræðir vinkona mín, Kolbrún Bergþórsdóttir bókmenntarýnir, mig á því, að þessi bók hafi komið út á íslensku 2011 undir heitinu Frönsk svíta, og gaf JPV hana út í þýðingu Friðriks Rafnssonar. Er gott til þess að vita, að Jóhann Páll Valdimarsson fylgist svo vel með erlendum bókmenntum.

Hinn níunda janúar 2013 bloggaði ég um orðasambandinu „skrímsladeild Sjálfstæðisflokksins“. Ég vissi fyrst af því árið 2006, þegar Össur Skarphéðinsson notaði það. En Bergsteinn Sigurðsson, sagnfræðingur og blaðamaður, benti mér á það, að orðasambandið kom fyrir í skrifum DV um Davíð Oddsson og þá menn, sem honum voru handgengnastir í Sjálfstæðisflokknum, árið 2004, og bætti ég þeim fróðleik við í eftirmála við bloggið.

Nú hefur Bergsteinn aftur bent mér á enn eldri notkun orðasambandsins. Það kemur að sögn hans fyrir í Morgunblaðinu 1998 og þá haft eftir Sighvati Björgvinssyni og enn í DV 2002 og þá haft eftir Bryndísi Schram. Líklegast er því, að Sighvatur Björgvinsson sé höfundur orðasambandsins, en ekki Hreinn Loftsson, eins og ég hafði látið mér detta í hug (en Hreinn smíðaði orðið „náhirðina“ um sama hóp og var hreykinn af).


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband