Davíð Oddsson hálfsjötugur

Hinn 17. janúar 2013 varð Davíð Odddsson, ritstjóri Morgunblaðsins, hálfsjötugur. Ég þyrfti að skrifa heila bók um kynni mín af honum (og vel getur verið, að ég geri það), því að margt hefur sögulegt gerst, frá því að ég hafði fyrst af honum að segja, þegar ég sat í þriðja bekk Menntaskólans í Reykjavík veturinn 1968–1969.

Ég kaus hann raunar í hörðu kjöri til inspectors (formanns skólafélagsins) vorið 1969, en flestir aðrir hægri menn í skólanum eyddu þá atkvæði sínu á Þorvald Gylfason, nú hagfræðiprófessor, sem laut í lægra haldi fyrir Davíð. Okkur strákunum í mínum bekk, 3. D, leist frá upphafi flestum betur á Davíð, en hikuðum sumir við að kjósa hann af stjórnmálaástæðum, uns einn úr bekknum, Einar Stefánsson, nú prófessor í augnlækningum, kom einn góðan veðurdag ábúðarmikill inn í skólastofuna norðvestanmegin á fyrstu hæð og sagðist hafa gengið úr skugga um, að Davíð væri hægri maður; hann væri skráður í Heimdall.

Þegar ég hef lýst Davíð Oddssyni, hef ég oft vitnað til Machiavellis, sem kvað stjórnmálaforingja þurfa í senn að vera hugrakkan sem ljón og kænan sem ref. Raunar sagði Hreinn Loftsson, sem var um skeið aðstoðarmaður Davíðs í forsætisráðuneytinu, eitt sinn við mig, að fleyg orð rómverska skáldsins Vergilíusar (Virgils) ættu vel við um stjórnmálaferil Davíðs: „Audentis fortuna juvat“ (Hamingjan styður hugdjarfa menn). Annar fyrrverandi aðstoðarmaður Davíðs, Illugi Gunnarsson, nú alþingismaður, lét líka einu sinni svo um mælt við mig, að í Davíð byggi sérstök blanda af hjartahlýrri tilfinningaveru og útsmognum baráttujaxli, og er sú lýsing ekki fjarri lagi, þótt ég hefði sjálfur bætt við þriðja atriðinu, að hann er einbeittur hugsjónamaður, sem hefur ætíð tekið málstað alþýðu manna, venjulegs vinnandi fólks, gegn þeim, sem hafa viljað fá gæðin fyrirhafnarlaust upp í hendur í krafti mælsku, prófskírteina, ætternis, auðs eða annars slíks.

Tímabilið frá 1991 til 2004, þegar Davíð Oddsson var forsætisráðherra, er eitthvert mesta framfaraskeið Íslandssögunnar. Verðbólga hjaðnaði, fjáraustur úr opinberum sjóðum í óhagkvæm fyrirtæki var stöðvaður, skuldir ríkisins greiddar upp, skattar lækkaðir, ríkisfyrirtæki seld, réttindi einstaklinga treyst með stjórnsýslulögum og upplýsingalögum, hagfellt rekstrarumhverfi tryggt í sjávarútvegi, og svo má lengi telja. En um og eftir 2004 urðu tímamót, þegar harðskeyttir peningamenn, sem nýtt höfðu sér nýfengið frelsi til að græða, fylltust oflæti og ætluðu sér um of, og höfðu þeir nánast öll völd hér næstu fjögur ár.

Hermann Jónasson sagði eitt sinn við Jónas Jónsson frá Hriflu: „Þú kannt að skrifa, en ekki að stjórna.“ Á sama hátt mátti segja við hina nýju valdhafa á Íslandi: „Þið kunnið að græða. Ef til vill kunnið þið líka að stjórna fyrirtækjum. En þið kunnið ekki að stjórna heilu landi.“ Þeir voru hæfileikamenn á sínu sviði og ætluðu sér eflaust ekki að setja hér allt á annan endann, en sú varð samt raunin.

Þótt Davíð varaði hvað eftir annað við óhóflegri skuldasöfnun, á meðan hann var bankastjóri, urðu örlög hans hin sömu og Kassöndru forðum, að ekki var hlustað á varnaðarorð hans. Ísland var þess vegna vanbúið, þegar hin alþjóðlega lánsfjárkreppa skall á af fullum þunga haustið 2008, svo að bankarnir hrundu. Ýmis önnur lönd urðu að vísu verr úti en Ísland, en bankahrunið var þjóðinni mikið áfall, og notuðu þá óprúttnir áróðursmenn yst til vinstri tækifærið og hrifsuðu völd. Virtust þeir aðeins hafa þrjú áhugamál, að flæma Davíð Oddsson úr stóli seðlabankastjóra, stórauka ríkisafskipti (sem ekki hefur gerst í grannríkjunum) og setja Íslendinga í skuldafangelsi, meðal annars með vanhugsaðri sölu tveggja banka til erlendra okurkarla og með hinum illræmdu Icesave-samningum, en Davíð átti sem ritstjóri drjúgan þátt í því, að þjóðin felldi þá tvisvar í þjóðaratkvæðagreiðslum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband