11.3.2013 | 14:11
Vínartónleikar í Hörpu
Ég var svo heppinn, að mér var boðið föstudagskvöldið 11. janúar 2013 á Vínartónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Hörpunni. Hljómsveitarstjórinn, Peter Guth, var bersýnilega þrautþjálfaður í að koma fram ekki síður en í að stjórna hljómsveit. Aðallega var flutt tónlist eftir Strauss-feðga. Tónleikarnir heppnuðust mjög vel, og skemmti ég mér hið besta.
Undir tónlistinni varð mér hugsað til hins volduga og víðlenda ríkis Habsborgarættarinnar, Austurríkis, Bæheims, Mæris, Slóvakíu, Slóveníu, Ungverjalands og Króatíu, sem hrundi í fyrri heimsstyrjöld. Vín var höfuðborg ríkisins, en einnig voru Prag og Búdapest stórborgir innan þess. Önnur utanferð mín var einmitt til Vínar á stúdentafund árið 1974, og skoðaði ég þá stóreygur hallir keisaranna af Habsborgarætt, Hofburg og Schönbrunn, háskólann og fleiri stórhýsi. Síðar átti ég eftir að hitta Otto von Habsborg, ríkisarfa landa ættarinnar, sem aldrei varð þó keisari, á fundum Mont Pelerin-samtakanna. Hann var félagi, en ég var í sex ár í stjórn þeirra.
Mér er það líka minnisstætt, þegar ég snæddi kvöldverð með gömlum Vínarbúa, Nóbelsverðlaunahafanum og hagfræðingnum Friedrich A. von Hayek, vorið 1985 á Ritz-gistihúsinu í Lundúnum, að fiðluleikarar komu að borðinu til okkar og spurðu, hvort við vildum ekki láta leika eitthvert lag. Ég hvíslaði að þeim, að þeir skyldu leika Wien, du Stadt meiner Träume (Vín, borg drauma minna) eftir Rudolf Sieczynski, og þegar Hayek heyrði lagið, ljómaði hann og hóf óðar að raula textann með, enda aðeins 86 ára að aldri og í fullu fjöri. Þetta lag var þó ekki flutt á Vínartónleikum sinfóníuhljómsveitarinnar.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook