7.3.2013 | 08:41
Skrímsladeild Sjálfstæðisflokksins
Nokkrum sinnum hefur opinberlega verið vikið að skrímsladeild Sjálfstæðisflokksins, svo að ómaksins vert er að kanna uppruna og merkingu orðsins. Því miður er Þórbergur Þórðarson, sem kallaði sig iðulega skrímslafræðing hennar hátignar Bretadrottningar, genginn, svo að málið verður ekki borið undir hann.
Þessi skrímsladeild var fyrst nefnd á prenti, svo að ég tæki eftir, haustið 2006. Þá birti dr. Þór Whitehead prófessor ritgerð í Þjóðmálum, þar sem fram kom, að Róbert Trausti Árnason, sem var um skeið ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins, hefði eftir fall Berlínarmúrsins farið til Þýskalands í því skyni að rannsaka, hvort þar væru einhver skjöl til um tengsl Svavars Gestssonar við leyniþjónustuna austur-þýsku, Stasi.
Össur Skarphéðinsson skrifaði grein í Fréttablaðið 16. október 2006, þar sem hann spurði, til hvers sú rannsókn hefði verið gerð. Nærtækast er, að forystumenn íhaldsins hafi fyrirskipað rannsóknina, sagði Össur og bætti við: Menn geta ímyndað sér, hvernig skrímsladeild Sjálfstæðisflokksins hefði notað slíkar upplýsingar.Þór svaraði Össuri hins vegar 18. október og upplýsti, að þeir Steingrímur Hermannsson og Jón Baldvin Hannibalsson hefðu mælst til þess við Róbert Trausta, að hann rannsakaði, hvort Svavar hefði verið í tengslum við Stasi. Eftir það þagnaði Össur um skeið.
Næst var þetta hugtak notað opinberlega haustið 2007 í hinum vinsæla skemmtiþætti Næturvaktinni á Stöð tvö, þar sem ég lék sjálfan mig að taka að næturlagi bensín á bíl. Ein aðalsöguhetjan í þáttunum, Georg Bjarnfreðarson, sem Jón Gnarr lék, sagði, þegar hann sá mig, að skrímsladeild Sjálfstæðisflokksins ferðaðist um í myrkri. Var því ljóst, að ég var talinn til skrímsladeildarinnar, en aðrir í henni voru að kunnugra sögn Davíð Oddsson, Björn Bjarnason og Kjartan Gunnarsson.
Enn var hugtakið notað sumarið 2009, þegar stjórnmálaskýrendur héldu því fram, að Bjarni Benediktsson væri með andstöðu sinni við Icesave-samninga ríkisstjórnarinnar að friða skrímsladeild Sjálfstæðisflokksins. Vantaði nú sárlega meistara Þórberg til að skýra málið nánar.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 29. desember 2012.)
Eftirmáli: Nú hefur Bergsteinn Sigurðsson, sagnfræðingur og blaðamaður, bent mér á eldra dæmi. Það er úr DV 20. júlí 2004: Þegar mikið liggur við, er sett af stað afl innan Sjálfstæðisflokksins, sem gjarnan kallast skrímsladeildin. Ég lagðist í smárannsókn eins og minn er vandi og fann enn eldra dæmi úr sama blaði, frá 29. maí 2004. Það er um hjásetu Jónínu Bjartmarz við afgreiðslu fjölmiðlafrumvarpsins: Svokölluð skrímsladeild hefur farið hamförum vegna þingmannsins og sögur um fjármál hennar hafa gengið ljósum logum um borg og bý. Einnig mun Sighvatur Björgvinsson hafa notað orðið 1998 og Bryndís Schram 2002. Ekki er því ólíklegt, að Sighvatur sé höfundur orðsins.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:51 | Facebook